138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á því að hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir væri að ljúka máli sínu. Ég er með andsvar við hana. Mig langaði að spyrja hana nánar í þessi svokölluðu leynimál fjármálaráðherra, hvernig hún haldi að standi á þeim, hvort hér sé verið í gangi með einhverjar dulbúnar hótanir. Það hafa náttúrlega komið fram upplýsingar og við höfum heila möppu af leynimálum úr fjármálaráðuneytinu sem liggur frammi úti á nefndasviði sem þingmenn eru núna þessa stundina einmitt að dusta rykið af til að rifja upp dagsetningar sem eru á þeim bréfum sem eru þar, dagsetningar sem eru frá því fyrir kosningar um mál sem var þægilega ekki minnst einu orði á í kosningabaráttunni t.d. Það eru svona mál sem fara mjög fyrir brjóstið á mér og það er náttúrlega ekki eingöngu við núverandi hæstv. fjármálaráðherra að sakast þó að hér séu einhverjar dulkóðaðar upplýsingar og yfirlýsingar í gangi sem ég átta mig ekki á í augnablikinu, heldur virðist þetta kannski hafa verið lenska lengi í stjórnsýslunni og í stjórnkerfinu að það er fullt af upplýsingum til sem koma almenningi virkilega við en ekki er upplýst um.

Mig langar því að spyrja einfaldlega í framhaldi af þessu inntaki í ræðu hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur hvort hún telji ekki þörf á að breyta sem fyrst öllum lögum sem snúa að þessum þáttum í stjórnsýslunni og stjórnkerfinu og gera það að grunnreglu að öll gögn sem eru til meðferðar alls staðar í öllum ráðuneytum verði uppi á borðinu og opinber nema vegna sérstakra ástæðna sem varða beinlínis þjóðarhag eða öryggi ríkisins, að grunnreglan sé einfaldlega sú að allar upplýsingar verði uppi á borðinu frá fyrsta degi.