138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég get í rauninni ekki svarað því hvað liggur þarna að baki. Það er það sem við erum að reyna að fá fram með þessari umræðu. Ég hef sjálf beðið hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra í fyrirspurn á þinginu um öll gögn, öll samskipti þeirra sjálfra við erlenda aðila eða það sem er á þeirra vegum í öllu þessu ferli og bíð svara við þeirri fyrirspurn. Hæstv. fjármálaráðherra verður reyndar alltaf mjög afundinn þegar ég spyr um þetta og heldur að ég sé að væna hann um eitthvað en það er alls ekki þannig. Ég vil fá að geta lagt mat á það sjálf. Það er það sem vakir fyrir mér.

Það hlýtur að vera eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn vita sem við vitum ekki vegna þess að það er með ólíkindum að menn ætli að samþykkja þetta núna eins og það er og koma hér og segja að þetta sé jafnvel betra en þetta var í sumar. Við sjáum það einmitt í þessari ágætu grein, sem ég komst ekki yfir að ræða, að prófessorarnir þrír fara vel yfir það að þessir fyrirvarar haldi ekki.

Varðandi upplýsingaöflunina getur vel verið að þetta sé lenska og þetta hafi alltaf verið svona. En ég minni á að þessi ríkisstjórn, þessir tveir flokkar, gagnrýndu það háttalag mjög mikið. Þess vegna hefði ég talið einboðið að þegar þau hefðu tækifæri, væru komin til valda og stjórnuðu landinu, sem þessir flokkar gera núna, mundu þau breyta þessum vinnubrögðum. En það er alls ekki þannig og hæstv. ráðherra vísar í skjöl, leynigögnin svokölluðu, sem við fengum aðgang að. Það var ekki að þeirra frumkvæði heldur var kallað eftir hverju einu og einasta sem við höfum um þetta mál. Ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt að breyta lögum. Við erum með upplýsingalög, við erum með stjórnsýslulög. (Forseti hringir.) Það er spurningin um að fara eftir þeim og að það fólk sem nú er komið til valda beiti þeim meðulum sem það hefur verið að kalla eftir.