138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það sem hv. þm. Þór Saari sagði um stjórnsýslu- og upplýsingalögin eftir námskeið hans í háskólanum, staðfestir hann það sem ég hélt fram áðan. Þetta snýst ekki endilega að breyta lögunum heldur snýst þetta um að fara eftir þeim. Það var það sem ég varði tíma mínum mestmegnis í í ræðu minni áðan að tala um, að ef hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherrar mundu tala með sama hætti og þeir gerðu fyrir ekki svo löngu síðan, ég vek athygli á því, værum við kannski ekki að karpa um þessi mál heldur ræddum við meira efnislega um það sem er hér á ferð. Ég held að við þurfum öll að viðhafa sem best vinnubrögð. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Þór Saari ákveði hvernig hann ver atkvæði sínu eftir því hvort flokkar veiti upplýsingar eða ekki. Ég ætla að leyfa mér fyrir hönd flokks míns að lofa því að við munum vera mjög til fyrirmyndar í þessum efnum. Ég hvet hv. þingmann, af því að ég veit að það er markmið hans í stjórnmálum að bæta vinnubrögð og koma á réttum stjórnarháttum, til að halda þessu áfram. Ég held að leiðir okkar gætu legið saman í því.