138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gera nokkrar athugasemdir við ræðu hæstv. fjármálaráðherra, í fyrsta lagi þetta: Við erum í umræðu sem fer eftir þingsköpum og það er ekki þannig að ríkisstjórnarmeirihlutinn á þinginu geti haft sinn vilja óháð minni hlutanum á Alþingi. Þingsköpin tryggja okkur ákveðna stöðu og við erum einfaldlega að nýta okkur réttinn til umræðunnar.

Það er ágreiningur á milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu um það hvort það sé bráðnauðsynlegt að klára Icesave-samningana. Það er líka ágreiningur um efni samninganna og við lítum málið ólíkum augum, ég og hæstv. fjármálaráðherra, þegar kemur að því hvort efni samninganna sé ásættanlegt, t.d. eru Icesave-samningarnir að okkar áliti fullkomin niðurlæging fyrir okkur Íslendinga. Við erum reiðubúnir til að taka þau fjölmörgu mál sem hæstv. fjármálaráðherra vakti athygli á hér á dagskrá. Reyndar er það svo að ríkisstjórnin hefur ekki nema rétt nýlega komið með þau inn á þingið, þannig að það er rangur málflutningur að halda því fram að hér bíði mörg mál afgreiðslu og Icesave-umræðan hafi tafið framgang þeirra á þinginu. (Forseti hringir.) Þau mál eru rétt nýframkomin og það stendur ekkert í vegi fyrir því að þau komist nú þegar á dagskrá.