138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að fyrsta stóra skattamálið sé búið að bíða í heila viku eftir því að komast að. Að sjálfsögðu á stjórnarandstaðan sinn lögvarða rétt, það er enginn að gera neinar athugasemdir við það að hann sé notaður. En það hvernig stjórnarandstaðan notar hann er líka á hennar ábyrgð, hin pólitíska ábyrgð á því sem öllum er auðvitað sýnilegt, hvernig stjórnarandstaðan fer með sinn rétt og sína stöðu hér verður heldur ekki undan skilið. Ég hef fullan skilning á því að það þurfi að ræða þetta mál mikið enda er heldur betur búið að því og þó var það rætt hér mestallt sumarið. Þess vegna finnst mér það dapurlegasta við þetta vera þegar menn sóa tímanum í nánast allt annað en að ræða málið efnislega og mótmæla því að hér sé fundað með eðlilegum hætti fram á kvöldin eða inn í nóttina til að þeir fái þetta tækifæri til að ræða málin.