138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst mótmæla útúrsnúningi hv. þingmanns. Ég var ekki að bera saman mál og stærðargráðu þeirra þegar ég fór yfir og rakti upplýsingar um ræðutíma. Ég var að bera saman aðstæður, bera saman ábyrgð stjórnarandstöðu annars vegar mánuðina eftir hrunið frá október til desember í fyrra og hins vegar aðstæður okkar núna sem eru alveg sambærilegar því þetta er sama hrunið og þetta eru sömu erfiðleikarnir sem við erum áfram að glíma við. Við höfum boðið upp á þjóðstjórn. Það boð var ekki þegið. Við vorum þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin væri að missa tökin á ástandinu, hvað kom í ljós? (ÞKG: Voru mótmæli?) Við töldum þá að úr því sem komið væri væri best að fram færu stjórnarskipti en vantrauststillagan var felld, hún var afgreidd, það tók stuttan tíma og truflaði ekki störf ríkisstjórnarinnar að öðru leyti.

Varðandi það hvort einhverjar hótanir hafi komið frá Bretum og Hollendingum nú á þessum síðustu dögum þá er svarið nei. Við reynum að halda þeim upplýstum um gang mála og þeir spyrjast reglulega fyrir en það eru engar hótanir af þeirra hálfu í gangi.