138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég spyr þá, hvað liggur á? Það er búið að sýna fram á það margoft í sumar þegar hótanir hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra lágu yfir, buldu á okkur þingmönnum, að við yrðum að klára málið í sumar og við gerðum það þá af mikilli reisn. Núna erum við í stjórnarandstöðunni að reyna að standa vaktina til að forða frá stórslysi því það hefur margoft komið fram að það liggur ekkert á. Þess vegna ítreka ég það sem við í stjórnarandstöðunni höfum sagt: Ef hæstv. fjármálaráðherra vill fá skattahækkunaráform sín á dagskrá, þá gerið þið svo vel. Við skulum taka þá umræðu en ekki vera að segja að við þurfum að dúndra Icesave núna í gegn af því að það séu svo mikilvægir hagsmunir sem búi þar að baki. Við höfum sýnt fram á það að með aukinni umræðu er hægt að efla og bæta málið. Við höfum enn þá tíma til þess og ég óska eftir því að bæði hv. fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd fái þann tíma sem til þess þarf. Og ég trúi ekki öðru en hæstv. fjármálaráðherra styðji mig í því að nefndirnar fái þann tíma sem þær þurfa til að fara betur yfir málið og fara yfir þær tillögur og nefndarálit sem koma frá efnahags- og skattanefnd en við skulum minnast þess að málið var rifið með ofbeldi út úr fjárlaganefnd.