138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst nauðsynlegt að nefna þetta sérstaklega vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra talaði eins og Alþingi hefði gefið þáverandi ríkisstjórn eitthvert óskilyrt umboð til að ganga frá hvernig samningum sem væri. Þannig hljómaði a.m.k. ræða hæstv. fjármálaráðherra en ég er feginn að við erum sammála um skilning á þessu.

Það var því alltaf ljóst að Alþingi mundi meta þegar samningar lægju fyrir hvort þeir væru hagstæðir eða ekki og þingið mundi ákveða þá hvernig við yrði brugðist. Hæstv. fjármálaráðherra getur auðvitað ekki skotið sér á bak við það að menn hafi skuldbundið sig til að styðja hvaða niðurstöðu sem var þegar ákveðið var að setja málið í samningaferli í desember í fyrra.

Hitt er annað að það er auðvitað mjög sérkennilegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli í ræðu sinni og reyndar í fjölmiðlum líka tala eins og Icesave-málið tefji það að skattafrumvörpin hans og önnur mál sem tengjast fjárlögum komist á dagskrá. Það hefur auðvitað verið ítrekað endalaust, hæstv. fjármálaráðherra, að stjórnarandstaðan mun sætta sig við það og ekki gera nokkrar athugasemdir við (Forseti hringir.) það að þau mál sem tengjast fjárlögunum komist (Forseti hringir.) á dagskrá og fari til nefndar eins og nauðsynlegt er.