138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það umboð sem þáverandi ríkisstjórn sótti sér í byrjun desember 2008 vísaði auðvitað í tiltekinn veruleika sem þá var uppi í málinu um að leiða málið til lykta á ákveðnum forsendum sem þá lágu fyrir. Sumar voru að vísu ekki ljósar. Þá höfðum við aldrei séð viljayfirlýsinguna sem undirrituð var með Hollendingum en sögur fóru af tilvist einhvers slíks. Þegar viljayfirlýsingin er undirrituð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn síðla nóvembermánaðar er hið sama sagt, að stefnt sé að því að leiða málið til lykta á næstu dögum þar á eftir á grundvelli tilboða um forfjármögnun frá Bretum og Hollendingum. Það vita allir inn í hvaða veruleika þarna var vísað.

Þegar ríkisstjórnin sótti sér svo umboðið til Alþingis mátti auðvitað ætla að lyktir málsins yrðu á þeim nótum og mátti hafa af því miklar áhyggjur. Maður spyr sig: Hvernig hefði maður brugðist við 5. desember hefði maður vitað allt sem maður veit nú og síðar vissi? Ég er ekki viss um að maður hefði þá, þrátt fyrir allt, leyft ríkisstjórninni að fá (Forseti hringir.) þetta umboð jafnviðspyrnulítið og raun bar vitni.