138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið því að ég tel nauðsynlegt að forseti beiti sér fyrir því að ákveðin atriði í ræðu hæstv. fjármálaráðherra verði skýrð.

Hér sagði hæstv. fjármálaráðherra m.a. að ekki væri hægt að greina frá ákveðnum hlutum í ræðustól Alþingis. Það er mjög mikilvægt að forseti beiti sér þá fyrir því að ráðherrann upplýsi alþingismenn undir öðrum kringumstæðum ef það er ekki hægt í ræðustól hvað það er sem ekki er hægt að ræða í ræðustólnum. Það er illþolanlegt, herra forseti, að við séum að ræða þetta stóra mál, þetta mikla mál, og svo virðist sem hæstv. fjármálaráðherra liggi eitthvað á hjarta sem hann vill ekki segja okkur. Þá bara býð ég honum upp á að ræða við mig í matarhléinu eða í framhaldi af því um hvað það er.