138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er alveg yndislega ótrúlega ómerkilegt. Það er alveg sama hvernig maður reynir að fara yfir málið, það er umsvifalaust reynt að gera úr því einhvern óskapnað, gera það tortryggilegt, blása það út, búa til eitthvert stórmál út af engu.

Ég hef núna farið rækilega í gegnum og rakið umhverfið utan um meðferð þessa máls og sagt þar allt sem hægt er að segja, allt sem máli skiptir, dreg þar ekkert undan og m.a. sagt hluti hér í morgun sem ég hafði ekki hugsað mér endilega að gera bara til að reyna að eyða þessari tortryggni. Það er algjörlega tilgangslaust og árangurslaust, það er óðar komið upp aftur með sömu tilburðina til að reyna að skapa tortryggni, reyna að gera þetta eitthvað dularfullt, reyna að læða því inn að það sé verið að leyna einhverju o.s.frv.

Við komumst hvorki lönd né strönd í málefnalegri umræðu, hv. þingmenn, ef við hegðum okkur alltaf svona.