138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég furða mig á viðbrögðum hæstv. ráðherra því að ég var bara að vitna í hans eigin orð í ræðustólnum. Ég skal ekki minnast einu orði á þetta hér meir, ég treysti því bara að við annaðhvort förum yfir þetta saman eða í það minnsta óska ég eftir því, herra forseti, að ræða hæstv. ráðherra verði prentuð út hið allra fyrsta þannig að við getum þá farið yfir þau orð sem þar komu fram.

Það er annað, herra forseti, sem er kannski af sama meiði og ég vona þá að hæstv. ráðherra geti skýrt það einnig. Það var haft eftir honum, herra forseti, í blaðaviðtali að hann efaðist um getu Alþingis til að fjalla um þetta mál. Ég lít það alvarlegum augum ef framkvæmdarvaldið sendir alþingismönnum og Alþingi þau skilaboð að við séum ekki til þess bær að fjalla um þetta mál. Ef ég misskil það með einhverjum hætti hvet ég ráðherra til að leiðrétta það einnig.