138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og hann deilir gjarnan athyglisverðum upplýsingum með þingmönnum. Hann fór ágætlega yfir mjög misvísandi upplýsingar sem komið hafa fram hjá m.a. Seðlabankanum o.fl. og fór m.a. yfir það hvernig vöruskiptajöfnuðurinn eigi að hringsnúast nánast á einni nóttu til að bjarga okkur út úr þessu. Það er mjög sérstakt hvernig sagan er lögð til hliðar og reynsla þjóðarinnar þegar finna þarf rök fyrir því að við getum borgað þessar Icesave-skuldbindingar.

Hv. þingmaður nefndi fyrr í ræðu sem hann hélt að það þyrfti, ef ég man rétt, um 76 þúsund tekjuskattsgreiðendur til að standa undir greiðslum af Icesave-láninu, 76 þúsund tekjuskattsgreiðendur. Ætli þeir séu ekki um 150 þúsund í það heila á Íslandi? Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það geti verið eða hvort það gangi upp að 76 þúsund tekjuskattsgreiðendur eigi um leið að standa undir velferðarkerfinu og öðrum skuldbindingum ríkisins og ríkissjóðs, standa undir rekstri sveitarfélaga og öllu sem því fylgir þegar þeir eru líka að greiða af Icesave-reikningunum. Getur verið að það sé ákveðinn misskilningur í gangi hjá ríkisvaldinu um að verið sé að nota sömu tölur sömu aðila til að greiða af Icesave og eiga að greiða af velferðarkerfinu?