138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að greiddir séu vextir af Icesave, það kom fram í máli þingmanns í morgun. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjáraukalögum og ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Það á kannski bara að láta þetta reka á reiðanum og þegar þarf að byrja að greiða afborganir verður reynt að ná í peninga fyrir vöxtunum einhvers staðar. Sumum okkar verður væntanlega ekki skotaskuld úr því. Kannski er hægt að ná í þá í ESB þegar þar að kemur.

Það er einfaldlega ekki gert ráð fyrir þessum upphæðum í fjárlögunum. Ég veit satt best að segja ekki af hverju það er ekki gert, menn eru eitthvað að takast á um það með hvaða hætti á að færa þetta í ríkisreikning og virðast ekki komast að neinni ákveðinni niðurstöðu um það. Það getur verið að það sé rétt. Það er hins vegar ekki óalgengt þegar menn eru ekki sammála um hvernig á að meðhöndla hlutina að þykjast einfaldlega ekki vita af því (Forseti hringir.) hvernig á að gera þá.