138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að þingmaðurinn minntist á afsal á dómsvaldi vegna þess að hann var í gær staddur á sama fundi og ég þar sem mjög skýrt kom fram að meiri hluti þeirra lögfræðinga sem þar voru — eins og ég skynjaði umræðuna, það hefur reyndar ekkert skriflegt komið frá þrem þeirra — var meira og minna sammála um að Íslendingar væru að gefa frá sér dómsvaldið í stórum hluta þessa máls.

Mig langaði aðeins að koma inn á þann þátt þingmannsins þar sem hann ræddi um að Brussel-fyrirvararnir væru núna með einum eða öðrum hætti komnir inn í samningana, þ.e. það er fullyrt. Þá langaði mig einmitt að spyrja þingmanninn hvort hann tekur ekki undir með Indefence sem segir að nú sé einfaldlega búið að segja að Brussel-fyrirvararnir séu í samningunum (Forseti hringir.) þrátt fyrir að þeir séu þar ekki efnislega.