138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið alveg skýrt í lögunum frá því í lok ágúst nr. 96/2009 að ef Bretar og Hollendingar væru ekki reiðubúnir að fallast á þá fyrirvara sem þar komu fram, félli ríkisábyrgðin úr gildi. Það stendur þar skýrum stöfum. Ég skildi vilja Alþingis þannig að hann hefði með niðurstöðu sinni klárað málið. Ég tek undir það með hv. þingmanni að að sjálfsögðu hefði átt að ræða þetta á milli ráðherra landanna. Þannig átti að standa að málinu frá upphafi. (VigH: Heyr, heyr.) Það er ágætt að benda á að þegar Samfylkingin var hér við völd árið 2007 og allt riðaði til falls, reið þáverandi utanríkisráðherra á milli landa til þess að sýna það og sanna að bankakerfið væri í góðu lagi. Eftir hrunið hafa forráðamenn þjóðarinnar varla stigið út fyrir landsteinana. (BirgJ: Þeir fóru til Albaníu.) Þeir fóru jú reyndar til Albaníu, það er rétt, við skulum halda því til haga. En á þetta var líka bent af lögmönnum sem komu fyrir nefndina í gær, að að sjálfsögðu átti að ræða málið á þjóðréttarlegum grundvelli, ekki í einkaréttarlegum samningi. Munum hvað kom þar fram. Þeir sögðu: Sú málsmeðferð sem viðhöfð hefur verið í þessu máli má ekki vera fordæmi fyrir neinni annarri málsmeðferð í framtíðinni. Þetta mál er svo fráleitt, það er svo fráleitt (Forseti hringir.) hvernig staðið hefur verið að því að það má aldrei gerast aftur.