138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur frá upphafi þessa máls reynt að hafa allt uppi á borðinu. Af hverju höfum við beitt okkur svona hart fyrir því að öll gögn komi fram? Jú, vegna þess að við viljum að þjóðin geti tekið yfirvegaða, rökstudda afstöðu í þessu máli. Það hefur náðst fram að vissu leyti. Það vantar enn þá upplýsingar um útgreiðslur úr þrotabúinu og fleira, t.d. um réttarstöðuna varðandi enskan rétt. Hvað gerist? Ég svaraði því einmitt í ræðu minni. Ég skal endurtaka það af fúsum og frjálsum vilja og ef hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sér sér fært um að vera hér í þingsal, getur hann væntanlega hlustað á það sem ég er að segja.

Ef Íslendingar samþykkja ekki Icesave er Íslandi miklu betur borgið en ef við tökum á okkur skuldbindingar sem binda komandi kynslóðir. En hvað gerist? Hollendingar og Bretar þurfa að sækja málið á hendur Íslendingum. Þetta kom fram í samræðum við lögfræðingana fjóra í gær. Með öðrum orðum, sú krafa sem við höfum haldið uppi allan tímann í málinu, að málið komist fyrir hlutlausa dómstóla verður að veruleika. Hollendingar og Bretar þurfa að sækja málið fyrir íslenskum dómstólum og þá fáum við sanngjarna niðurstöðu. Við höfum sagt að við séum reiðubúin að lúta þeirri niðurstöðu, að sjálfsögðu. Síðan er fullyrt að eitthvað stórkostlegt muni gerast. Það eru engin rökstudd gögn sem sanna það. Engin, bara fullyrðingar. Ef maður skoðar það kemur í ljós að (Forseti hringir.) Íslendingum verður alltaf betur borgið með því að greiða ekki (Forseti hringir.) Icesave-skuldirnar.