138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir spurningarnar. Svar mitt er í rauninni að ég tek heils hugar undir þær fullyrðingar sem hún setti fram enda er hún vel fær um að meta það sjálf. Þetta er einfaldlega þannig í mínum huga að það getur ekki verið gott fyrir íslenska þjóð að skuldsetja sig langt fram í tímann til þess að bjarga efnahagnum núna. Það er talað um sjö ára skjól en það fylgir aldrei sögunni að á meðan erum við að borga 100 milljónir í vexti á dag. Það fylgir heldur aldrei sögunni að við eigum að borga há lán á næstu tveimur árum sem gerir að verkum að við þurfum að skera enn meira niður. Síðan þegar það er búið tekur Icesave við.

Því hefur meira að segja verið haldið fram í umræðunni að við þurfum ekki að borga þetta ef við förum inn í Evrópusambandið. Mér heyrðist ég heyra einn frægasta þáttastjórnanda landsins, sem á hvorki fleiri né færri en tvo þætti í ríkissjónvarpinu, halda því á lofti að við þyrftum ekkert að borga þetta á endanum. Hvers lags endemis vitleysa. Ef við skrifum undir þennan samning erum við að binda komandi kynslóðir. Sigurður Líndal og fleiri af okkar virtustu lögmönnum benda á að það brýtur gegn stjórnarskránni. Við megum ekki binda þjóðina óútskýrt fram til komandi kynslóða, það er einfaldlega bannað samkvæmt stjórnarskránni.

Um leið og ég þakka spurningarnar sem að mér var beint vil ég skora enn á ný á fjárlaganefnd (Forseti hringir.) að skoða þetta varðandi fullveldisréttinn mun gaumgæfilegar (Forseti hringir.) en mér sýnist að stefni í að verði gert.