138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er verið að leggja margra milljarða evru skuld á íslenska þjóð sem hún ber alls enga ábyrgð á og getur alls ekki greitt. Þetta skrifar Eva Joly nú á sumarmánuðum. Hún ritaði grein sem birtist í mörgum blöðum samtímis víðs vegar um heim þar sem hún snerist til varnar íslenskri þjóð. Ég vil rifja þetta upp, frú forseti, vegna þess að margir stjórnarþingmenn hafa haldið því fram að þetta sé orðinn einsleitur málflutningur stjórnarandstöðunnar sem nánast eingöngu talar í þessu máli. Þess vegna sé ég fulla ástæðu til þess að rifja þetta upp og hvetja stjórnarþingmenn til þess að taka þessi orð alvarlega.

Hvað skrifar Eva Joly, frú forseti? Hún segir að verið sé að leggja hér skuldabyrði á íslenska þjóð sem hún telur að þjóðin muni ekki standa undir að greiða. Og af þessu hafa margir aðrir mjög miklar áhyggjur. Í þessari ágætu grein, sem Eva Joly skrifaði í sumar, sem birtist í mörgum blöðum víðs vegar um heiminn, snerist hún til varnar íslenskri þjóð. Þá hafði ekki komið svo mikið sem eitt pennastrik frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar um það að koma þessu sjónarmiði á framfæri. Hún fór vel yfir það í grein sinni, Eva Joly, hvað verið væri að kúga Íslendinga til að gera. Það væri verið að kúga íslenska þjóð og nauðbeygja hana til þess að taka á sig skuldbindingar sem hún réði ekki við. Hún taldi þar upp bæði Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlöndin sem ættu að standa okkur mjög nærri. Því miður hafa engir nema Færeyingar, kærir vinir okkar, gert það og staðið undir nafni að vera vinaþjóð.

Frú forseti. Mig langar að vitna í grein sem Ragnar H. Hall skrifaði nú á dögunum um svokallað Icesave-mál. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa úr greininni frá honum. Þar stendur:

„Þessa dagana er til meðferðar á Alþingi nýtt frumvarp til laga um ríkisábyrgð vegna lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) vegna ætlaðrar ábyrgðar ríkisins á skuldbindingum sjóðsins út af hinum heimsfrægu Icesave-reikningum Landsbankans. Það er sjálfsagt til lítils að rökræða um efni þess, þar sem málið er talið „þreytt“ og fullvíst talið að stjórnarþingmenn muni samþykkja frumvarpið, hvað sem tautar og raular. En það má reyna.“

Það má þó reyna og það erum við að reyna hér líka, frú forseti. Við erum að reyna að varpa ljósi á þær hættur sem felast í þessu máli og koma því áfram til stjórnarþingmanna.

Ég vil vitna aftur í greinina, með leyfi forseta:

„Ég veit ekki hvort það hefur gerst fyrr í þingsögunni hér á landi að mál hafi borið að með þessum hætti á löggjafarsamkomunni, og því til áréttingar skulu hér rakin örfá atriði: Upphafið má rekja til þess að Bretar og Hollendingar hafa lýst þeirri skoðun að íslenska ríkið eigi að bæta peningum við það sem fyrir er í TIF til þess að sjóðurinn ráði við að borga lágmarkstryggingu samkvæmt Evróputilskipuninni, sem hér hefur verið lögfest. Íslendingar vildu fá úr því skorið fyrir dómstólum, hvort sú skylda væri yfirleitt fyrir hendi, en það vildu Bretar og Hollendingar alls ekki. Ísland lét þá undan þrýstingi þessara vinaþjóða og ríkisstjórnin skipaði samninganefnd sem fékk það verkefni að fara á fund þeirra og koma til baka sem fyrst með samning um það hvernig við gætum staðið að uppgjöri við þá.

Samninganefndin kom til baka með samning, „frábærlega hagstæðan samning“ að mati stjórnvalda, og hann var lagður fyrir þingið til þess að afla lagaheimildar fyrir ríkisábyrgðinni. Eftir sumarlanga umfjöllun á Alþingi voru þar samþykkt lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lántökuna, en henni voru sett allmörg skilyrði, sem menn hafa kallað fyrirvara, og yrðu Bretar og Hollendingar að samþykkja þessa fyrirvara áður en ríkisábyrgðin yrði veitt. Fyrirvarar þessir voru fremur skýrir, og ekki átti að vera neitt sérstaklega vandasamt að útskýra þá fyrir vinaþjóðunum. Eða hvað?“

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það, og hef reyndar margoft bent á það, að skynsamlegra hefði verið, þegar búið var að setja fyrirvarana hér, að íslensk stjórnvöld, þ.e. hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og þá forustumenn stjórnarandstöðunnar, hefðu farið á fund Breta og Hollendinga og hitt bresk og hollensk stjórnvöld til þess að kynna þeim þau lög sem Alþingi Íslendinga hafði sett. Ég furða mig á því að hæstv. forsætisráðherra hafi tekið það upp hjá sér að skrifa Bretum og Hollendingum bréf og senda það með bréfdúfu, eða það hvarflar alla vega að manni, vegna þess að það tók svo langan tíma að fá svarið til baka. Mér finnst það algjörlega ólíðandi vinnubrögð hvernig þetta er gert.

Auðvitað hefði verið skynsamlegra að menn hefðu farið hina leiðina og fundað með forustumönnum Breta og Hollendinga. Reyndar hefur verið bent á það að einn reyndasti samningamaður heims, Lee Buchheit, sem kom á fund hjá fjárlaganefnd í sumar, ráðlagði okkur það að ef menn ætluðu að leysa þetta mál á lokastigi þess, yrði það aldrei gert öðruvísi en þannig að menn tækju þetta upp á svona hærra pólitískt „level“ eins og hann orðaði það. Ekki væri hægt að klára endann á þessum samningum öðruvísi en með því að taka það frá embættismönnunum og færa það yfir á hið pólitíska „level“.

Þar með er ég, frú forseti, ekki að gera lítið úr þeim einstaklingum sem höfðu það verkefni að kynna þessa fyrirvara, ég er alls ekki að gera það. Ég efast ekki um að það ágæta fólk hafi gert allt sem í þess valdi stóð. En þetta var skoðun hans eftir áratugareynslu af því hvernig staðið er að svona hlutum, þ.e. það varð að fara þá leið að kynna þetta með þessum hætti. Mér finnst það því algerlega óviðunandi að við skyldum ekki hafa farið þessa leið og nýtt þá í leiðinni þá samstöðu, pólitísku samstöðu, sem náðist hér á Alþingi. Því miður, frú forseti, höfum við gert mörg mistök í þessu máli nánast frá upphafsdegi.

Nú vil ég vitna aðeins aftur í greinina hjá Ragnari Hall, með leyfi forseta:

„Hér eru svo miklir fjármunir í húfi, að ekki er ofmælt að deilan snúist nánast um framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Það orðfæri var gjarnan notað þegar Íslendingar stóðu síðast í milliríkjadeilum við Breta, en þá snerist ágreiningurinn um fiskveiðilögsögu. Það er fróðlegt að bera saman vinnubrögðin sem beitt var af okkar hálfu í þeim deilum og þau sem nú hafa verið viðhöfð. Sá samanburður er ekki núverandi stjórnvöldum í hag – vissulega var þá ekki til neitt sem heitir Evrópska efnahagssvæðið, en við nýttum þau úrræði sem við höfðum til að knýja fram niðurstöður okkur í hag. Í Icesave-deilunni hefur verið staðið með öðrum hætti að hagsmunagæslu fyrir okkur – við höfum nánast boðið Bretum og Hollendingum að stilla upp þeim samningum sem við eigum að skrifa undir. Allir vita að þessar þjóðir hafa misbeitt áhrifum sínum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins til knýja á um niðurstöður sér í hag, og þess sér ekki stað að íslenska ríkisstjórnin hafi reynt að spyrna á móti, svo einkennilegt sem það er. Við gátum eytt hundruðum milljóna króna í framboð til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, en í þessu máli verður ekki séð að málstaður Íslands hafi verið kynntur að neinu ráði þar sem máli skiptir.“

Virðulegi forseti. Ragnar H. Hall bendir hér réttilega á að þegar við fengum þá „frábæru hugmynd“, Íslendingar, að reyna að ná sæti í öryggisráðinu, eyddum við í það mörgum hundruðum milljóna króna. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? En nú þegar við erum í erfiðustu milliríkjadeilu sem við höfum lent í lengi notum við svo gott sem enga fjármuni til þess að kynna málstað okkar Íslendinga, sem svo sannarlega þarf að gera í þessu máli, vegna þess að verið er að kúa okkur á mörgum stöðum, það eru Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópusambandið, Bretar og Hollendingar, Norðurlöndin og margir fleiri.

Það sem er þó sárgrætilegast við þetta er að íslensk þjóð skuli ekki standa saman sem ein heild. Auðvitað ættum við, bæði stjórn og stjórnarandstæðingar, að sameinast um það að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga. Við eigum að gera það, við ættum að standa saman en ekki vera að berjast hér innbyrðis. Það er líka með ólíkindum, í ljósi þess sem gerðist, að ekkert hefur verið gert sem hönd er á festandi, ekki sem ég hef orðið var við, í því að reyna að kyrrsetja eignir þeirra manna sem í hlut eiga, útrásarvíkinganna, ekkert um það hvernig við getum náð til baka því sem var þó tekið inn á Icesave-reikningana.

Að lokum, frú forseti, (Forseti hringir.) vil ég setja fram hugmynd. Ef við þurfum að standa skil á þessu væri ágætt að skrifa inn í samningana að Bretar og Hollendingar tækju þá tónlistarhúsið upp í skuldina.