138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. ræðumanni Ásbirni Óttarssyni fyrir framlag sitt í umræðuna. Mig langar til að velta upp þeirri spurningu hvernig staðan væri á Íslandi ef ráðamenn þjóðarinnar hefðu hagað sér með sambærilegum hætti þegar við áttum í deilum við Breta, þorskastríðinu, vegna þess að það voru stór skref að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur. Maður veltir því líka fyrir sér hvernig staðan væri í sjávarbyggðum eins og á norðanverðu Snæfellsnesi ef það hefði ekki orðið að veruleika, ef menn hefðu lúffað og gefið eftir allar kröfur sínar eins og gert er í Icesave-málinu. Ég ímynda mér að þingmaðurinn hafi mjög sterkar skoðanir á málinu. En það er akkúrat það sem ég held að við verðum að hafa í huga þegar við ræðum Icesave-deiluna.

Hvaða skoðun sem menn hafa á málinu, af hverju hefur það ekki verið kynnt fyrir leiðtogum annarra þjóða? Af hverju hefur ekki verið farið til ríkja innan Evrópusambandsins og þeim sýnt fram á að kannski hefðu Íslendingar góðan málstað að verja? Það hefur aldrei verið gert nema þá í einhverjum ömurlegum tölvupóstsamskiptum eða bréfaskriftum sem þjóðhöfðingjar eða forsvarsmenn annarra ríkja sjá nánast enga eða litla ástæðu til þess að svara.