138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir þau orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um að þjóðin eigi að standa saman. Ég lýsti því yfir í fjölmiðlum hér fyrr í sumar að þetta mál ætti ekki að leiða til þess að ríkisstjórnin spryngi. Ég óskaði eftir því að allir flokkar ræddu þetta á málefnalegan hátt og tækju í kjölfarið skynsamlega afstöðu. Það var sárt að finna að það voru, að mínu mati, þingmenn stjórnarinnar sem settu málið í þann búning. Það kom ekki frá neinum öðrum flokki en Samfylkingunni að ef Icesave yrði ekki samþykkt færi ríkisstjórnin frá völdum. Það var vopn sem var notað til að draga minni hluta vinstri grænna til sín aftur vegna þess að á sínum tíma voru þeir mótfallnir því að við samþykktum Icesave-málið. Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta mál sé algjörlega hafið yfir flokkslínur og tek því undir með hv. þingmanni. Ég tek líka undir með því sem hann sagði um að við værum ekki að brigsla forráðamönnum þessarar þjóðar um að gera ekki það sem þeim þætti best. Það sem ég vildi hins vegar benda á er að ef haldið hefði verið á þessu máli eins og haldið var á þorskastríðinu værum við í miklu betri stöðu. Lögmenn sem komu á fundinn í gær fullyrtu að málsmeðferðin mætti aldrei vera sú sama héðan í frá. Við mættum aldrei (Forseti hringir.) gera sömu mistök og við erum að gera í þessu máli.