138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu sína. Ég tek svo sannarlega undir orð hans og athugasemdir við ræðu hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag þess efnis að það væri mjög einkennilegt, miðað við það bréf sem kom sem svarbréf frá framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, þar sem í fyrstu málsgreininni kemur mjög skýrt fram að það hefur aldrei verið skilyrði frá hendi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það þurfi að ljúka eða eins og það er kallað „resolution“ af Icesave-málinu. Ég held að það hafi bara aldrei komið jafnskýrt og opinbert svar frá fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvað þetta varðar. Þeir hafa hins vegar alltaf bent á að til þess að hægt væri að ganga frá endurskoðun á áætluninni og vinna hana áfram, væri nauðsynlegt að hún væri fullfjármögnuð og síðan höfum við séð Norðurlöndin benda á hvert annað. Svíar segja að þeir hafi sett það sem skilyrði með Icesave á meðan Norðmenn segja að svo hafi ekki verið, og svo heyrist mjög lítið frá Finnum og Dönum varðandi þetta mál. Ég held að það sé mjög einkennilegt af hæstv. fjármálaráðherra að fullyrða að það sé krafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ljúka Icesave-málinu og endurskoðunin tengist því.

Hins vegar hefði ég áhuga á að heyra frá þingmanninum hvernig hann sér jafnræðisregluna tengjast þessu máli, jafnræðisreglu Evrópusambandsins. Margir hafa sagt að jafnræðisreglur séu margar en hvernig verður jafnræði íslenskra banka og íslensks bankakerfis gagnvart öðrum löndum sem eru stærri og máttugri ef fyrir liggur sá skilningur Evrópusambandsins að ef tryggingarsjóðir geti ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru á þá verði ríkin að hlaupa til. Þýðir það ekki að það er algerlega á hreinu að íslenskir bankar munu aldrei nokkurn tíma geta keppt á jafnræðisgrundvelli innan innri markaðar Evrópusambandsins?