138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir vék í rauninni að tveimur þáttum í andsvari sínu og mun ég reyna að svara báðum eftir því sem tíminn leyfir.

Annars vegar vil ég segja það um orð hæstv. fjármálaráðherra varðandi þrýsting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ég var ekki með orðum mínum endilega að rengja ummæli hæstv. fjármálaráðherra. Við skulum bara gefa okkur að hann kunni að hafa rétt fyrir sér. Engu að síður er ljóst að hafi hann rétt fyrir sér hafa þeir Dominique Strauss-Kahn og Mark Flanagan rangt fyrir sér. Þetta er atriði sem mér finnst skipta miklu máli að verði með einhverjum hætti upplýst, þannig að við vitum hver er að segja sannleikann í þessu máli, hvort það eru talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða hvort það er hæstv. fjármálaráðherra og raunar einnig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þarna er einfaldlega vafi á ferðinni sem er óþolandi vegna þess að við þurfum að eiga samskipti við þessa stofnun og raunar einnig ríkisstjórnir Norðurlandanna sem við vitum að koma þarna nærri en höfum ekki endilega glögga mynd af hvernig hafa spilað inn í málið. Við þurfum að hafa einhverja mynd af þessu, við þurfum að átta okkur á þessu vegna þess að það er einhver tvískinnungur í þessu öllu og ég er ekki endilega að segja að hvað þetta varðar sé tvískinnungurinn hjá íslenskum stjórnvöldum. Ég tel reyndar að yfirlýsingar einstakra ráðherra í haust og sumar hafi verið mjög misvísandi. Hins vegar er alveg ljóst að það sem hæstv. ráðherra segir núna og efnahags- og viðskiptaráðherra sagði um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stangast algerlega á við það sem talsmenn sjóðsins hafa sagt, bæði í viðtölum við fjölmiðla og í skriflegum gögnum eins og bréfinu sem hv. þingmaður vísaði til.