138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má kannski vonast eftir að þetta muni allt skýrast núna þegar fyrir liggur beiðni frá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um fundargerðir og minnisblöð sem varða Icesave-málið, og það hlýtur að liggja fyrir þar sem til eru ljósmyndir af pólitískum aðstoðarmanni fjármálaráðherra þar sem hann er að skrifa minnisblað í flugvél eftir einn slíkan fund. Nú veit alþjóð að hæstv. fjármálaráðherra átti fund með Dominique Strauss-Kahn í Istanbúl í sumar og einhver minnisblöð hljóta að hafa vera tekin niður eftir þann fund. Það væri ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra væri tilbúinn til að leggja þau minnisblöð fram því að þá hlýtur að koma í ljós hvort framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer með rangt mál í því bréfi sem hann sendi til fulltrúa borgarafundarins. Það ætti því að vera lítið mál fyrir ráðherrann að sanna hvor hefur rétt fyrir sér í þessu máli.

Ég mundi vilja ítreka spurningu mína til hv. þm. Birgis Ármannssonar. Hann er lögfræðimenntaður og hefur staðið sig ágætlega í málefnum sem varða lagaleg vafamál. Ég held nefnilega að það hafi alls ekki verið rætt nógu mikið um jafnræðisregluna hér á þinginu. Ég sat fund í fjárlaganefnd í sumar, leysti þar af fulltrúa okkar í Framsóknarflokknum, Höskuld Þórhallsson, og þar kom lögfræðingur sem kvaðst vera sérfræðingur í ESB-rétti og talaði mjög mikið um þessa jafnræðisreglu og raunar barði nánast, ekki í orðsins fyllstu merkingu, á okkur með að þetta væri ástæðan fyrir því að við yrðum að borga þessar innstæður vegna þess að þetta væri spurning um jafnræðisreglu Evrópusambandsins. En er jafnræðisreglan ekki víðtækari en þetta, eins og þessi lögfræðingur túlkaði þetta (Forseti hringir.) og eins og fulltrúar Evrópusambandsins og Breta og Hollendinga hafa túlkað jafnræðisregluna? Gildir hún ekki líka fyrir okkur?