138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég náði ekki að koma inn á svar við þessum lið spurningar hv. þm. Eyglóar Harðardóttur í fyrra svari mínu. Ég tel að hv. þingmaður hafi akkúrat hitt naglann á höfuðið, það eru auðvitað tvær hliðar sem snerta jafnræðisregluna sem koma hér til skoðunar. Annars vegar er um að ræða jafnræðisreglu sem lýtur að starfsskilyrðum fjármálastofnana sem búa, eins og hún bendir réttilega á, við mismunandi skilyrði ef þær eiga að styðjast við mismunandi sterka tryggingarsjóði, ef ríkisábyrgð er á sumum innstæðutryggingarsjóðum en ekki öðrum. Það raskar auðvitað samkeppnisskilyrðum verulega. (EyH: Og mismunandi sterkir ríkissjóðir.) Og eins og hv. þingmaður bendir á eru ríkissjóðir misjafnlega staddir og stóru ríkin hafa auðvitað forskot í þessum efnum á okkur hin smærri. Þetta er þáttur í sambandi við túlkun jafnræðisreglunnar sem hefur ekki fengið mikla skoðun í þessu máli. Ég treysti mér ekki til að svara afdráttarlaust hér en mér fannst það hins vegar mjög gild röksemdafærsla sem heyra mátti hjá hv. þingmanni um þetta og hefur reyndar heyrst í umræðunni áður, að jafnræðisregluna eigi ekki eingöngu að skoða út frá stöðu innlánseigenda eða þeirra sem tryggingarsjóðirnir eiga að vernda samkvæmt orðanna hljóðan, heldur einnig varðandi starfsskilyrði fjármálastofnana og það á auðvitað að gera bæði út frá samkeppnissjónarmiðum Evrópuréttarins og jafnræðissjónarmiðum.

En það að þetta mál hafi ekki fengið nægilega skoðun sýnir svolítið að málin lentu einhvern veginn allt of snemma í allt of þröngum farvegi þar sem farið var að líta á samningaviðræðurnar sem tæknilegt úrlausnarefni, (Forseti hringir.) nánast bara hvernig ætti að útfæra tiltekið skuldabréf, en hinn pólitíski þáttur málsins í breiðum skilningi varð út undan.