138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrra atriðið sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi er það auðvitað svo að í mínum huga hefur það verið alveg skýrt og greinilegt og það hefur ítrekað komið fram í ræðum þingmanna stjórnarandstöðunnar bæði í sumar og haust, að við teldum að þetta mál snerist ekki um ríkisstjórnina eða framtíð hennar. Það hefur ekki verið okkar mat. Við höfum ekki lagt andstöðu okkar upp á þeim grundvelli að við ætluðum okkur að fella ríkisstjórnina. Það er misskilningur eins og hv. þingmaður nefndi hér. Eini einstaklingurinn sem talað hefur opinberlega í þá átt er í raun og veru hæstv. forsætisráðherra sem hefur notað það sem svipu á fólk í ríkisstjórnarflokkunum að falli þetta mál eða stoppi sé ríkisstjórnin fallin. Það er hæstv. forsætisráðherra sem hefur vakið máls á því en við í stjórnarandstöðunni höfum marglýst því yfir að við værum að taka afstöðu til málsins sem slíks, við værum að berjast gegn þessu máli sem slíku en við værum ekki að þessu leyti í neinni baráttu við að koma ríkisstjórninni frá, þó að hún sé okkur auðvitað þyrnir í augum að svo mörgu öðru leyti. Það er allt annað mál. En þetta mál er afmarkað sem við erum á móti vegna þeirra efnisástæðna sem í því eru fólgnar en ekki út af einhverjum leik varðandi ríkisstjórnina.

Varðandi hitt atriðið, stjórnarskrána, liggur auðvitað ljóst fyrir að það þarf að skoða þann þátt og ræða miklu, miklu betur en gert hefur verið. Ég get auðvitað sagt eins og ég sagði á föstudaginn, hygg ég að það hafi verið frekar en mánudaginn, að ég fagnaði því að fjárlaganefnd sæi ástæðu til að eiga fund með lögfræðingum og fræðimönnum á sviði stjórnskipunarréttar til að ræða þessi mál. En mér sýnist, miðað við þær mismunandi útfærslur sem ég hef fengið í gegnum fjölmiðla af þessum fundi í fjárlaganefnd, að þar hafi alls ekki verið einhugur á ferðinni í þessum efnum (Forseti hringir.) og enn vantar okkur auðvitað gagnrökin gegn þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um (Forseti hringir.) að þarna væru atriði sem stönguðust herfilega á við stjórnarskrána.