138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er rétt hjá hv. þingmanni, ég met stöðuna með svipuðum hætti og hann. Ég held að fólk sé smám saman að átta sig aftur á hversu gallað málið er. Það var auðvitað komin upp þreyta gagnvart málinu og er svo sem enn. Þetta er ekki skemmtilegt mál að ræða, hvorki fyrir okkur í þinginu né fólk úti í samfélaginu. Þetta er ekkert skemmtiefni. Það er alveg ljóst að hér er um mjög alvarlega hluti að ræða en engu að síður held ég að það sé rétt hjá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að úti í samfélaginu er fólk að átta sig í enn ríkara mæli á hversu gallað þetta er. Og miðað við það sem ég heyri og þau viðbrögð sem ég fæ á meðal almennings eru þau öll á þann veg að fólk er sammála okkur um það mat að fyrirvararnir sem settir voru í lok sumars séu orðnir gagnslausir að meira og minna leyti, það sé búið að taka úr sambandi öryggisventla sem þó voru fyrir hendi þá. Þrátt fyrir að hvorki ég né hv. þm. Höskuldur Þórhallsson greiddum frumvarpinu atkvæði okkar í lok ágúst vorum við þó sammála um að málið var miklu, miklu skárra með þessum fyrirvörum en án þeirra, og af þeim sökum höfðum við auðvitað miklar áhyggjur af stöðu málsins þegar búið var að gera helstu öryggisventlana í þessu sambandi gagnslausa. Það er alveg rétt að hér hefur ekki farið fram sú rökræða um málið sem nauðsynleg er. Við í stjórnarandstöðunni höfum velt upp ótal málum, ótal hliðum á þessu, fjölmörgum veigamiklum athugasemdum, veigamiklum sjónarmiðum sem skipta máli og fært fram rök fyrir máli okkar, en á hinn bóginn hefur mjög skort á það að fulltrúar stjórnarflokkanna, þeir sem hafa áhuga á að samþykkja frumvarpið (Forseti hringir.) óbreytt, komi hér og rökstyðji afstöðu sína.