138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég komst ekki alveg til enda í ræðu minni á laugardaginn og mun því halda áfram þar sem frá var horfið. Ég mun aðallega gera tvennt að umtalsefni í ræðu minni núna. Annars vegar er það forsaga þessa máls sem hefur truflað mig og maður vill gjarnan fá að vita aðeins meira hvað skeði í aðdraganda bankahrunsins og svo ætla ég líka aðeins að ljá máls á því í hvaða stöðu hæstv. forseti Íslands er í augnablikinu varðandi það hvað verður gert þegar þessi lög verða komin í gegn, hvort hann muni undirrita eða ekki og í hvaða stöðu forsetaembættið eiginlega er.

Varðandi aðdragandann langar mig að grípa aðeins niður í það sem kom fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar frá því í sumar þegar Icesave-málið var til umræðu í fyrra sinn og fór í gegn. Þar var dregið fram hvað eigum við að segja og ég kýs að kalla það að við höfum þá gert ákveðin mistök í aðdraganda þessa máls. Á bls. 4 í nefndaráliti meiri hlutans, sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson og aðrir í meiri hlutanum skrifuðu undir, stendur, með leyfi forseta:

„Icesave-samningarnir byggjast á þeirri meginforsendu að íslensk stjórnvöld höfðu ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda bankahrunsins að þau mundu standa við skuldbindingar samkvæmt tilskipun 94/19/EB og að yfirvöld styddu Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta til þess ef þörf krefði.“

Hér er meiri hluti fjárlaganefndar í ríkisstjórn Samfylkingar og VG að segja í nefndaráliti sínu að Icesave-samningarnir byggist á þeirri meginforsendu, og það er notað orðalagið „meginforsenda“, að meginforsendan hafi verið það sem þetta byggir allt á, að íslensk stjórnvöld hefðu ítrekað nokkrum sinnum að þau mundu standa við skuldbindingarnar samkvæmt því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda á að gera. Þetta er að mínu mati rétt söguskoðun. Að vísu segir líka í nefndarálitinu að þetta hafi allt skeð meira og minna eftir bankahrunið, að menn hafi áttað sig á þessu en það var ekki þannig. Bretarnir voru að spyrja okkur af því að það voru rauð blikkandi ljós og menn gerðu sér grein fyrir því hvað þetta var allt erfitt og miklar líkur á því að bankarnir gætu fallið, að menn gætu lent í vanda með tryggingarsjóðinn, þá eru Bretarnir að spyrja okkur og þá voru þessar yfirlýsingar gefnar út.

Þegar gögnin eru skoðuð, og ég hef gert það þá kemur fram, eins og ég benti á í fyrri ræðum mínum, virðulegur forseti, hvað átti sér stað varðandi samskipti Íslendinga og Breta í aðdraganda bankahrunsins. Ég ætla að fara yfir annað svarið sem ég fékk við skriflegri fyrirspurn varðandi það. Í fyrri ræðu minni náði ég að lesa að í tölvupósti frá 14. ágúst 2008 er vísað í bréf breska fjármálaráðuneytisins frá 20. ágúst en þetta eru tölvubréf frá viðskiptaráðuneytinu til breska fjármálaráðuneytisins og þar kemur m.a. fram og ég ætla að leyfa mér að lesa það upp aftur, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er alveg skýrt samkvæmt lögum að innstæðutryggingarsjóði beri að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að tryggja að sjóðurinn greiði út það lágmark.“

Íslendingar segja sem sé að það sé alveg skýrt að sjóðurinn eigi að greiða út þessa lágmarksupphæð og þess vegna mundi stjórnin, þ.e. stjórn tryggingarsjóðsins, ávallt leita eftir láni til að tryggja að sjóðurinn gæti staðið við þetta. Þetta segjum við við Bretana. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra á þessum tíma og það er mjög athyglisvert að skoða hvað sagt er í bréfum frá viðskiptaráðuneytinu sem send voru til breska fjármálaráðuneytisins, fyrst um miðjan ágúst og síðan 5. október. Í bréfinu til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst er verið að vísa til viðræðna og bréfs þar sem Bretar leggja fram nokkrar spurningar varðandi Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Í svari okkar Íslendinga kemur fram, þ.e. í svari hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar, og ég ætla að vitna í það beint, virðulegur forseti:

„Ef svo vildi til, sem er ólíklegt að okkar mati, að stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tækist ekki að afla nauðsynlegs fjármagns á fjármálamarkaði getum við fullvissað ykkur um að ríkisstjórn Íslands mundi grípa til allra þeirra ráða sem ábyrg ríkisstjórn myndi grípa til í slíkri stöðu, þar með talið að aðstoða sjóðinn við að afla þess fjár sem þörf væri á þannig að sjóðurinn gæti staðið skil á lágmarksgreiðslum.“

Þetta er sent 20. ágúst og við segjum þar með að við ætlum að borga og ef það er ekki til peningur ætlum við að bjarga inn pening, finna hann. Þetta kemur því mjög vel í ljós þarna.

Í bréfi frá 5. október, sem er nota bene daginn áður en neyðarlögin eru sett og tveimur dögum áður en Landsbankinn fellur, frá hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, til breska fjármálaráðuneytisins segir, og ég ætla að lesa það upp, virðulegi forseti:

„Vísað til viðræðna yðar um sl. helgi. Ef þörf krefur mun ríkisstjórn Íslands styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við að afla nauðsynlegs fjár þannig að sjóðurinn gæti staðið að skilum að lágmarksgreiðslum ef til þess kæmi að Landsbankinn eða útibú hans í Bretlandi kæmist í þrot.“

Það er rétt sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að Íslendingar hafa ítrekað sagt við Breta að við munum borga þetta. Þetta hefur auðvitað sett okkur í alveg gífurlega þrönga stöðu og ég átta mig ekki á því, virðulegi forseti, hvort þessi bréf sem fara frá viðskiptaráðuneytinu á þessum tíma eru samin þar og send eða hvort þau hafa farið í gegnum einhverja víðtækari skoðun hjá öðrum ráðuneytum og hvort þetta hafi verið gert yfirvegað. Sú er hér stendur áttar sig ekki á því.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka aðeins að minnast á stöðu þessa máls varðandi framhaldið. Ég fór áðan inn á indefence.is og sá að núna hafa tæplega 20 þúsund manns, þ.e. rúmlega 19.900, sent inn áskorun á forseta Íslands um að staðfesta ekki Icesave-lögin. Það er svolítið athyglisvert að velta fyrir sér hvaða þrýstingur fer í gang því þetta er auðvitað gífurlegur þrýstingur á forsetaembættið. Þegar maður skoðar það sem hefur verið sagt í þessari orðræðu upp á síðkastið þá var þann 1. desember í viðtali á Morgunvaktinni við forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, verið að draga líkingu milli Icesave-málsins og fjölmiðlafrumvarpsins sem forseti kaus á sínum tíma að skrifa ekki undir. Í umræddu viðtali vitnar herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í rökin sem voru færð fyrir því að hann undirritaði ekki fjölmiðlalögin. Ég var reyndar mjög hissa á því að hann skyldi ekki hafa gert það á sínum tíma og taldi að það væri eiginlega útilokað að forsetaembættið gæti gengið gegn lýðræðislega kjörnu þingi sem hefði komist að niðurstöðu um atkvæðagreiðslu. En forsetinn kaus að gera það eigi að síður og röksemdafærslan var, og ég hef líka verið að stúdera þær yfirlýsingar og þann texta sem forsetaembættið gaf frá sér á þeim tíma, aðalröksemdafærslan var að fjölmiðlar væru mikilvægir og það yrði að vera víðtæk samstaða í samfélaginu um það mál þegar menn breyttu lagaumgjörðinni gagnvart fjölmiðlum. Það væri gjá milli þings og þjóðar og það þyrfti að vera víðtæk samstaða. Það voru rökin sem að mati forsetaembættisins dugðu á þeim tíma til að samþykkja ekki fjölmiðlalögin og biðja þar af leiðandi um þjóðaratkvæðagreiðslu og hún ætti að fara fram sem fyrst og þjóðin ætti lýðræðislega að ganga frá þessu máli.

Nú kemur í ljós að í sumar undirritar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, Icesave-lögin með yfirlýsingu sem vísar í fyrirvarana, þá fyrirvara sem þá höfðu verið settir sem náðust fram í mikilli sátt milli margra þingflokka í þinginu og það varð til þess að forsetaembættið, eins og ég skil yfirlýsinguna frá forseta Íslands sem var undirrituð 2. september 2009, að forsetinn samþykkti að taka mið af fyrirvörunum og skrifaði undir lögin. Núna velti ég því mjög fyrir mér í hvaða stöðu forsetaembættið er komið vegna þess að það er mikill þrýstingur, það eru 20 þúsund manns búnir að skrifa undir yfirlýsingu um að forseti staðfesti ekki lögin og mjög margir vilja fá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrirvararnir eru meira og minna farnir og það er að koma upp mjög sérstök staða, virðulegur forseti.