138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef einmitt velt þessu fyrir mér og er sammála því sem hér kom fram. Þegar forsetaembættið undirritaði ekki fjölmiðlalögin á sínum tíma kom það mér mjög á óvart af því að þetta var lýðræðislega kjörið þing sem tók lýðræðislega afstöðu með atkvæðagreiðslu eins og vera ber í lýðræðisríki. Þá var vísað til þess að það væri svo mikið ósætti um fjölmiðlalögin í samfélaginu. Rökin voru að vegna eðlis fjölmiðla ætti þjóðin að fá að skera úr um þetta. Í yfirlýsingu forseta Íslands núna 2. september 2009 út af Icesave-málinu var vísað í fyrirvarana, með leyfi virðulegs forseta:

„Fyrirvararnir eru niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.

Samstaða hefur náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi samþykkti þá með afgerandi hætti.“

Ég vek athygli á að þarna er talað um að um fjóra þingflokka sé að ræða en núna standa meira eða minna bara tveir þingflokkar að þessu máli. Svo kemur, virðulegi forseti, tilvitnun í þessa yfirlýsingu forseta Íslands:

„Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.“

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að með þessa yfirlýsingu forseta Íslands í huga sem í haust vísar til fyrirvara sem Alþingi setti og halda ekki lengur, eru núna meira og minna farnir, og með vísan í það að hann undirritaði ekki fjölmiðlalögin og vildi fá þau í þjóðaratkvæðagreiðslu hlýtur maður að spyrja sig: Í hvaða stöðu er þetta embætti ef það taldi hægt að senda (Forseti hringir.) fjölmiðlalögin í þjóðaratkvæðagreiðslu og af hverju ætti það ekki að vera hægt núna? Ég var samt ósammála því í fyrra skiptið.