138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þm. Illugi Gunnarsson með kannski enn ein rök sem hljóta að auka þrýstinginn á forsetaembættið varðandi þetta mál. Það er þess eðlis að menn geta væntanlega ekki tekið það inn og breytt því eftir því sem meiri hluti þingsins vill og þess vegna er það enn þá þyngra í vöfum en fjölmiðlalögin voru nokkurn tímann. Ég velti því líka sérstaklega fyrir mér vegna þess að forsetaembættið kaus að samþykkja ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum í haust, forsetaembættið kaus sjálfviljugt og eiginlega ekki undir neinum sérstökum þrýstingi eins og ég man það. Núna eru 20.000 manns búnir að skrifa undir áskorun um að forsetinn samþykki ekki þessi Icesave-lög. 30.000 manns skrifuðu undir áskorun út af fjölmiðlalögunum, (RM: 38.) aðeins fleiri — eða 38.000, já, ég veit ekki alveg töluna, (Gripið fram í.) en forsetaembættið kaus sjálfviljugt að samþykkja lögin í haust með yfirlýsingu. Þegar maður les yfirlýsinguna sem var „með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis“ getur maður ekki skilið þessa árituðu yfirlýsingu frá forsetaembættinu öðruvísi en svo að forsetinn hafi talið rétt að samþykkja lögin í haust vegna fyrirvaranna og að fyrirvararnir sem þingið hafi smíðað hafi að mati forsetaembættisins verið smíðaðir á víðtækan hátt, fjórir þingflokkar hafi komið að málum o.s.frv. Það er ekki fyrir hendi núna. Fyrirvararnir tóku „mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð“ þannig að ég velti fyrir mér hvaða möguleika forsetaembættið hafi núna. Það getur væntanlega annaðhvort verið samkvæmt sjálfu sér og samþykkt ekki lögin, eða samþykkt lögin en þá hlýtur að koma einhver útskýring með því vegna þess að fyrirvaraleið (Forseti hringir.) var farin, að vísa í fyrirvarana, en nú eru fyrirvararnir horfnir. Þá hlýtur embættið að útskýra af hverju það samþykkir lögin ef það gerir það. (IllG: Sáttin farin.)