138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að framkvæmdarvaldið er búið að mála sig út í horn með þessum bréfaskiptum eins og hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi. Menn sömdu eins og andstæðingurinn hefði rétt fyrir sér, könnuðu málin ekki nægilega vel til að vita að hann hafði rangt fyrir sér. (Utanrrh.: Það er það sem fyrrverandi fjármálaráðherra sagði.) Því hefur verið velt upp hvað hefði t.d. gerst ef reikningurinn hefði verið 4 millj. stykkið í staðinn fyrir 400.000 þannig að skuldbindingar hefðu verið 7.000 milljarðar í staðinn fyrir 700 milljarðar. Hvað hefðu Íslendingar þá gert? Auðvitað gekk þetta kerfi ekki upp og það eiga allir að vita að þessi tilskipun Evrópusambandsins er meingölluð. Mér finnst að það vanti líka inn í þetta.

En það að í fyrsta skipti núna skuli vera sagt að þetta sé þvingun og nauðung finnst mér breyta stöðunni heilmikið. Núna er þrýstingurinn farinn af þessu máli. Þrýstingurinn er farinn vegna þess að menn geta ekki lengur beitt hryðjuverkalögum. Það yrði svo fáránlegt. Menn geta ekki lengur beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum því að hann þykist ekki vita af neinu og tengir þetta ekki saman. Svo er Dúbaí líka komið sem annað Ísland, sem dæmi um að fleiri en Íslendingar geta farið á hausinn. Mér sýnist að allt umhverfið sé að breytast þannig að nú getum við rólega látið málið bíða. Alþingi ætti að senda samningamenn til Hollands og Bretlands, ekki framkvæmdarvaldið, og semur við þá t.d. um lækkun vaxta. Þá getur framkvæmdarvaldið sagt að það hafi reynt eins og það gat en lenti alltaf á Alþingi sem fyrst setti skynsamlega og sanngjarna fyrirvara í sumar og þegar það dugði Bretum og Hollendingum ekki til stendur Alþingi enn þá þversum og neitar að samþykkja þessar álögur á þjóð sína (Forseti hringir.) sem gæti hugsanlega valdið fátækt hér um langa tíð.