138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að hv. þingmaður geti tekið undir með mér að Gunnar leikstjóri á hugheilar þakkir skildar frá Alþingi Íslendinga fyrir það að hafa ráðist í það að skrifa þetta bréf, því það skiptir máli fyrir okkur og stöðu okkar í þessu öllu saman að fá fram afstöðu Dominiques Strauss-Kahns með jafnskýrum hætti og gert var. Þetta skiptir allt máli þegar kemur að samskiptum við aðrar þjóðir, við Breta og Hollendinga, við Norðurlöndin og aðra sem að þessu máli koma. Nú er það svo, herra forseti, að ég veit að hér á eftir mun hæstv. utanríkisráðherra veita andsvar og ég spyr því hv. þingmann hvort hann geti jafnvel verið sammála mér um það að áhugavert væri ef hæstv. utanríkisráðherra upplýsti fyrir okkur hversu miklum fjármunum Íslendingar hafa varið í þessum slag öllum til að kynna málstað okkar, m.a. á Norðurlöndum, við norræna þingmenn, í Bretlandi og Hollandi og bera það síðan saman við það sem við vorum tilbúin til þess að eyða í framboð okkar til öryggisráðsins en sá kostnaður hljóp á hundruðum milljóna króna.