138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni sem hér talaði áðan um að auðvitað eigi Íslendingar að reyna að koma málstað sínum í þessu máli á framfæri hvar sem þeir geta. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki að þegar þingmenn hv. stjórnarandstöðu eru á fundum erlendis eigi þeir að koma þeim viðhorfum, sem hann er að túlka, á framfæri. Ég spyr að gefnu tilefni. Ég var á fundi um daginn með nokkrum íslenskum þingmönnum úr stjórnarandstöðunni og fjölmörgum þingmönnum á Evrópuþinginu og þar opnaði stjórnarandstaðan ekki á sér munninn ef frá er talin alveg skínandi góð ræða formanns Framsóknarflokksins um þetta mál sem utanríkisráðherra, sem hafði líka framsögu á þessum palli fundarins, tók algjörlega undir. Ég hafði reyndar fyrr um morguninn á fundi EES-ráðsins flutt ræðu sem var algjörlega samhljóma ræðu hv. þingmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. En þarna voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sögðu ekki neitt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst honum það ekki dálítið skrýtið að þingmenn skuli ekki nota hvert tækifæri til að koma málstað Íslendinga á framfæri?

Í annan stað vil ég segja að ég hef hlustað hér á margar ræður. Þetta er skipulagt málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem menn setja á vaktir og eru bara að reyna að tefja tímann og skemma fyrir ríkisstjórninni. Það verða menn að eiga við sjálfa sig. Hér eru mjög fáar málefnalegar ræður fluttar. Ég verð þó að segja það hv. þingmanni til hróss að að mér fannst ræða hans vera málefnaleg. Og það sem hv. þingmaður lagði hér til málanna varðandi ályktun Daniels Gros á meintu ójafnræði tryggingarsjóða í þremur löndum, það finnst mér vera mál sem alveg er sjálfsagt að sé brotið til mergjar. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Ef honum er umhugað um að það mál verði rannsakað, af hverju tekur hann þá þátt í því málþófi sem bókstaflega kemur í veg fyrir að hægt sé að skoða þetta í þingnefndinni? Hafi ég skilið málið rétt, komu (Forseti hringir.) upplýsingar Daniels Gros ekki fram fyrr en eftir að þessi umræða var hafin. Ég spyr hv. þingmann um það (Forseti hringir.) og vona að hann geti svarað án leiðbeininga frá hv. formanni þingflokks (Forseti hringir.) framsóknarmanna því að við vitum að hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur fulla burði til þess að hugsa sjálfur og jafnvel tala (Forseti hringir.) sjálfur líka.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að virða ræðutímann.)