138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efa ekki að hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, hafi staðið sig afburðavel við að tala um þetta mál á erlendum vettvangi (Utanrrh.: Ég sagði bara „prýðilega“.) en ég veit svo sem ekkert hvernig aðrir þingmenn hafa staðið sig. Ég hef hins vegar þá trú og hef heyrt marga þingmenn, bæði Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka, tala um að þeir ræði þetta við þingmenn á ferðum sínum erlendis.

Ef við höldum áfram með þetta mál, það hvernig við eigum að taka upp nýja hluti. Það er nefnilega rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að þetta mál kom upp eftir að frumvarpið var tekið út úr nefndinni. Þá er spurning hvort ekki væri eðlileg krafa að nefndin hefði komið saman og fjallað um þetta afar mikilvæga mál. Það væri hægt að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort til að mynda formaður fjárlaganefndar hefði heimild til að breyta viðaukasamningnum út af þessu atriði. Er einhver vissa fyrir því?

Þannig að við þurfum greinilega að halda áfram að (Forseti hringir.) ræða málið, því staðreyndin er sú að það koma fram (Forseti hringir.) ný efnisatriði (Forseti hringir.) nánast vikulega.