138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur við að ég óski eftir því að fá að bera af mér sakir. Hæstv. utanríkisráðherra leggur mér þau orð í munn að ég sé að tala íslensku þjóðina niður. Honum væri nær að líta í eigin barm. Ég hef í þessum ræðustól ítrekað haldið því fram að ég hefði fulla trú á því að við Íslendingar komumst upp úr þessari efnahagslægð hraðar en nokkurn órar fyrir, en að því gefnu að íslensk stjórnvöld haldi vel á spilunum og skattleggi í fyrsta lagi ekki fyrirtækin í það miklum mæli að þau ráði ekki við að halda því starfsfólki sem við erum með á launaskrá eins og við höfum rætt í þingsölum í dag, að stjórnvöld samþykki ekki þessar ofurklyfjar sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja til hér í dag og við erum að ræða í þessu frumvarpi.

Það er ekki sanngjarnt af hæstv. utanríkisráðherra sem er yfirleitt dagfarsprúður maður að bera slíkar sakir á hv. þingmann sem hér stendur. Það er algjörlega óverðskuldað. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi einfaldlega ekki hlustað alfarið á ræðu mína og að það sé skýringin á þessu. Ég frábið mér allar athugasemdir hæstv. ráðherra varðandi svartagallsraus, þær eru einfaldlega rangar og ekkert slíkt hefur komið frá mér í þessum ræðustól Alþingis. (PHB: Hann er bara pirraður.)

Hæstv. forseti. Ég er ekki formaður Sjálfstæðisflokksins, það er einhver misskilningur hjá hæstv. utanríkisráðherra. Þrátt fyrir að sjálfstæðismenn hafi verið í ríkisstjórn með flokki hæstv. utanríkisráðherra var það ekki svo þegar lagt var af stað í þá vegferð að reyna að semja í þessu máli að það væri samþykkt að fara í hvaða samninga sem er. Það er einfaldlega ekki þannig. Það liggur fyrir, herra forseti, að í fyrrverandi ríkisstjórn og á þinginu sem stóð hér fyrir ári var ákveðið að fara þá leið að reyna að leita samninga vegna þess að á því stigi var ljóst að það væri hægt að reyna þá leið. Þar var hins vegar ekki samþykkt að semja upp á hvað sem er. Alþingi Íslendinga samþykkti fyrirvaralögin í sumar sem ríkisstjórnin getur ekki staðið við (Forseti hringir.) og er komin hér með algjöra grundvallarbreytingu á og búin að kasta þeim lögum (Forseti hringir.) fyrir róða.