138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meira hvað hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins verða æstir þegar þeim er bent á hvernig þeir tala. Ég yrði það líka, í þeirra sporum mundi ég líka skammast mín fyrir að tala svona.

Framsóknarflokkurinn hefur efni á að koma hingað og tala um að þetta séu ekki góðir samningar, en hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa það ekki. Þeir lögðu af stað í samninga sem voru miklu verri. Fjármálaráðherra þeirra skrifaði undir plagg sem fól í sér miklu verri samninga en þetta.

Ég er svo alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað eiga bæði hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn að reyna eftir fremsta megni að notfæra sér aðstöðu sína þegar þeir eru erlendis til þess að tala máli Íslands. Hvernig stendur þá á því að þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tækifæri til þess að tala við stóran hóp af t.d. þingmönnum Evrópuþingsins sitja þeir og þegja? Það gerði ekki Samfylkingin og ekki Framsóknarflokkurinn. (PHB: Þetta er ekki rétt.)