138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er einfaldlega algjörlega ósammála þeirri túlkun hæstv. utanríkisráðherra að ríkisstjórnin sem hann sat í ásamt sjálfstæðismönnum hafi verið búin að undirgangast einhverja verri samninga en hér liggja fyrir. Það er einfaldlega röng sögutúlkun og það er eins og hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki verið í síðustu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það hafa reyndar komið (Gripið fram í.) ákveðnar efasemdir í huga okkar í þingsalnum undanfarna mánuði varðandi það þar sem samfylkingarmenn virðast alfarið hafa gleymt þessu tímabili.

Hæstv. forseti. Það er ekki neinn bragur á því að hæstv. utanríkisráðherra eða hvaða þingmaður sem er standi í ræðustól og beri sakir á fjarstadda þingmenn. Ég tel, herra forseti, þetta vera nokkuð sem aldrei hafi liðist í ræðustól Alþingis. (Utanrrh.: Jú, jú.) Ég vonast (Gripið fram í.) til þess að hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) eigi þá ekki orðastað við það fólk sem hann telur sig eiga sökótt við. Ég get ekki borið sakir á fólk um einhvern fund sem ég sat ekki en ég fullyrði, herra forseti, að á öllum þeim vígstöðvum þar sem ég hef komið og hitt erlenda þingmenn hef ég talað máli okkar. Allir þeir (Forseti hringir.) hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ég hef rætt við um þessi mál hafa vissulega haldið okkar málstað á lofti. (Forseti hringir.) Það er okkar hlutverk. [Umræður halda áfram í þingsalnum.]