138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér með blað sem heitir The Economist og fyrirsögnin er „Þögli Ameríkaninn“. Ég er búinn að reyna að tengja hana við hæstv. utanríkisráðherra í kvöld en get það ekki.

Mig langar að velta hér upp einu máli sem kom upp í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag og það er þegar hæstv. fjármálaráðherra talar um grímulausar hótanir Evrópusambandsins vegna Icesave-málsins. Við þingmenn erum búnir að flytja ræðu eftir ræðu og benda á að Evrópusambandið sé búið að hóta Íslendingum og halda íslensku þjóðinni í gíslingu vegna þessa Icesave-máls. Því hefur verið neitað af hverjum stjórnarliðanum á fætur öðrum en þá kemur hæstv. fjármálaráðherra og upplýsir um það að Evrópusambandið sé búið að beita Ísland grímulausum hótunum í þessu máli. Er nema von, herra forseti, að við spyrjum okkur hér: Hvað er satt og rétt sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum? Ég held að það væri ekki úr vegi í ljósi þess að m.a. ráðherrar hafa farið fram á að hér yrði rannsakað orðfæri þingmanna að setja stjórnarmeirihlutann og jafnvel ríkisstjórnina í einhvers konar sannleikspróf.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem flutti hér ljómandi góða ræðu hvort hún telji ástæðu til að taka málið upp á alþjóðlegum vettvangi gagnvart Evrópusambandinu vegna uppljóstrunar hæstv. fjármálaráðherra um að Evrópusambandið hafi grímulaust kúgað okkur (Forseti hringir.) í þessu máli.