138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:08]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tel eðlilegt að þingfundur haldi áfram í kvöld og fram á nótt í samræmi við þá samþykkt sem gerð var á þessum fundi fyrr í dag. Hv. þingmönnum er kunnugt um þá samþykkt og þeir geta skipulagt sig í samræmi við það. Mér segir svo hugur að stjórnarandstöðuþingmenn hafi nú þegar skipulagt vinnu sína og viðveru hér í þingsal og aðra þátttöku í umræðunni út frá því og í samræmi við það að fundur verði fram á kvöld og fram á nótt. Ég held því að menn þurfi ekki að kvarta yfir því að mikið skipulagsleysi sé á þessu nema þá kannski helst því að menn hræra svolítið í mælendaskránni sín í milli, flytja menn upp og niður eftir því hver er í húsi. Það er kannski ekki alveg nýtt að það sé gert en þó eru nokkuð mikil brögð að því eftir því sem mér hefur virst.

Frú forseti. Ég hvet eindregið til þess að við höldum fundi áfram í kvöld og fram á nótt (Forseti hringir.) um það mál sem hér er á dagskrá og hefur verið undanfarna daga.