138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef nú aðra ræðu mína um þetta mál en hún er framhald á fyrri ræðunni þar sem í fyrstu ræðu minni gafst ekki tími til að klára þá upptalningu sem þar var hafin. En þannig er mál með vexti að í þessu máli eru svo mörg atriði sem taka þarf á og ræða að ég hef númerað þau allra helstu. Stærstu atriðin sem við þurfum að ræða á þinginu, hvert og eitt er það stórt að það mundi réttlæta heila umræðu í þinginu en ég mun reyna að tala sem allra hraðast um hvert fyrir sig til að koma þeim flestum að.

Ég var kominn að atriði númer 25 og það varðar fullyrðingar um að klára þurfi Icesave-samningana með ákveðnum hætti, eins og ríkisstjórninni og Bretum og Hollendingum þóknast til þess að við fáum enn meiri lán. Er þar bæði átt við lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og frá Norðurlöndunum. Nú hefur komið glögglega í ljós og hefur verið staðfest enn frekar frá því að ég flutti fyrri ræðu mína og þá fyrstu um þetta mál, að búið er að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlandanna. Það hafa fulltrúar Norðurlandanna þegar staðfest svoleiðis að þetta vandamál er ekki til staðar en þó er undarlegt hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á umræðunni um málið. Fullyrt hér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri þá kröfu til Íslendinga að við klárum Icesave-málið á nákvæmlega þann hátt sem Bretar og Hollendingar ætlast til að við klárum það til að við fáum lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum. Ef þetta væri satt, sem framkvæmdarstjóri sjóðsins hefur reyndar fullyrt skriflega að sé ekki, sem ríkisstjórn Íslands heldur fram þá hefði að sjálfsögðu þurft að gera athugasemdir við það. Það hefði þurft að gera athugasemdir við það opinberlega, enda væri það í raun heimsfrétt ef svo væri, eins og ríkisstjórn Íslands hefur haldið fram, að verið væri að misnota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með þessum hætti.

Atriði númer 26 snýst um lánin sjálf, þau lán sem ríkisstjórnin segir að öllu sé nánast til fórnandi til að fá, þ.e. það er sama til hvers er ætlast af okkur af hálfu Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, við verðum að samþykkja það til að fá þessi lán. En hvaða gagn er í þessum lánum, hvernig gera þau stöðu okkar betri? Við göngum nú í gegnum kreppu sem númer eitt, tvö og þrjú er skuldakreppa. Skuldir ríkisins og reyndar heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga eru hinn eiginlegi vandi og annað leiðir af skuldunum, til að mynda vandinn með gengi íslensku krónunnar. Þetta ætlar ríkisstjórnin að reyna að leysa með enn frekari skuldsetningu eins órökrétt og það kann að hljóma. Hættan er að sjálfsögðu sú að til standi að nota þessi lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á nákvæmlega sama hátt og gert hefur verið í öðrum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið við sögu, þ.e. nota gjaldeyrinn sem þar fæst að láni til að kaupa upp íslenskar krónur. Af hverjum verða þessar krónur keyptar? Af þeim erlendu fjárfestum, jöklabréfaeigendum og öðrum sem hér sitja fastir.

Það er ekki að ástæðulausu sem menn óttast að þetta sé raunin og ef af verður, verði það sem átti að vera kosturinn við Icesave-samningana hugsanlega einn stærsti galli þeirra. Það er ekki að ástæðulausu sem menn telja að sú geti orðið raunin. Ástæðan er nefnilega sú að í fjölmörgum löndum hefur nákvæmlega sama ferli átt sér stað og ýmislegt sem bendir til að það sé að gerast hér einnig. Hvernig stendur á því að vöxtum er haldið jafnháum og raun ber vitni á Íslandi og verið er að greiða næstum 10% vexti fyrir innlán í Seðlabanka Íslands? Ríkisstjórnin er á hverjum einasta degi að borga þessum erlendu áhættufjárfestum gríðarlegar upphæðir og er svo að taka að lán í gjaldeyri sem væntanlega verður notaður til að borga út þessa fjárfesta þegar þeir eru búnir að ávaxta peninga sína verulega í íslenskum krónum.

Það hefur ekki verið útskýrt hvaða önnur ástæða liggur að baki þessum lántökum. Einhverjir hafa nefnt þá möguleika að hugsanlega standi til að nota þetta til að endurfjármagna önnur lán ríkisins. Því hafnaði ríkisstjórnin lengst af en er núna orðin tiltölulega óskýr í svörum miðað við það sem áður var. En ef ætlunin er sú að nota þetta annars vegar til að kaupa upp íslenskar krónur og hins vegar til að endurfjármagna lán íslenska ríkisins, eru til mun betri nálganir hvað það varðar. Til að mynda með því að semja um lánalínur sem einar og sér gætu gagnast við að styrkja gengið því að uppkaup eigin gjaldmiðils fyrir erlent lánsfé er ekki sjálfbær aðferð.

Númer 27, lánshæfismatið, er í rauninni eina atriðið sem stendur eftir af þeim fjölmörgu atriðum sem ríkisstjórnin hefur nefnt gegnum tíðina sem ástæður þess að við verðum að taka á okkur þessar Icesave-skuldbindingar, sama hvað í þeim felst, en stendur þó ekki eftir nema að því leytinu til að ríkisstjórnin er enn að reyna að halda því fram. Rökin eru hins vegar ekki til staðar, enda fráleitt, algerlega efnahagslega fráleitt að halda því fram að aukin skuldsetning og auknar kvaðir á ríkið sé til þess fallið að styrkja lánshæfismat þess. Það sem lánshæfismatsfyrirtækin líta fyrst og fremst til er skuldsetningin og ekki hvað síst skuldsetning í erlendri mynt. Með Icesave-samningunum verður skuldsetning Íslands slík að það verður ákaflega erfitt fyrir ríkið að fá lán ekki bara næstu árin heldur hugsanlega næstu áratugina og það mun að sjálfsögðu birtast í lánshæfismati ríkisins. En þetta er sérstaklega mikilvægt einmitt núna vegna þess að nú er því spáð að lánshæfi ríkja um allan heim muni lækka eftir það sem gerðist í Dúbaí, en það ríki á núna í erfiðleikum með að borga af skuldum sínum. Og þá búast menn við því að nú verði endurskoðaðar þær aðferðir sem notaðar eru til að meta lánshæfi ríkja og skuldsett ríki, þau ríki sem skulda mikið og sérstaklega þau ríki sem skulda mikið í erlendri mynt verði lækkuð. Þar af leiðandi er viðbúið að Ísland lendi í þessu, að lánshæfi ríkisins verði fellt með þeim afleiðingum að það verði ekki sérstaklega auðvelt fyrir Ísland að nálgast erlent lánsfé. Þeim mun mikilvægara er að við séum ekki búin að skuldsetja okkur með viðbótarskuldsetningu sem nemur hundruðum milljarða króna, og þeim mun mikilvægara að ætli menn þrátt fyrir allt að gera það, þá hafi þeir einhverja öryggisventla, einhverja fyrirvara, því að annars er úti um lánshæfi Íslands, ekki bara næstu árin heldur næstu áratugina.

Atriði númer 28 snýr að fullyrðingum sem við höfum heyrt alveg frá því í júlí af hálfu ríkisstjórnarinnar, að ekkert Evrópuríki vilji viðurkenna að það sé ekki ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum. Þetta er fullyrt eftir samtöl við fulltrúa þessara ríkja innan Evrópusambandsins en skoðum nú hvernig dæmið lítur raunverulega út hjá þessum ríkjum. Ekkert þeirra, ekki eitt einasta hefur sjálft viljað viðurkenna ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum sínum. Falast var eftir því við Þýskaland að ríkið gæfi út yfirlýsingu um að innstæðutryggingarsjóðurinn þar í landi, sem tryggir gríðarlega stóra banka, nyti ríkistryggingar. Þýska ríkið féllst ekki á það, vildi ekki gefa slíka yfirlýsingu og ekki að ástæðulausu, þessi ríki ætla ekki að tryggja sína innstæðutryggingarsjóði. Væri ekki eðlilegt ef þessi ríki öll eru að gera þá kröfu til Íslendinga að þeir veiti ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóði sínum að þau geri þá slíkt hið sama? Hefur verið farið fram á það við þessi lönd af hálfu Íslendinga að þau gefi út viðlíka yfirlýsingu og þau ætla Íslendingum nú að framkvæma? Nei, það hefur ekki verið gert. Það hefur ekkert verið gert til að jafna stöðu Íslands og þessara landa eða útskýra það óréttlæti sem við erum beitt.

Atriði númer 29 er skýrsla frá seðlabanka Frakklands þar sem sérstaklega er getið um það að innstæðutryggingarkerfið, sama innstæðutryggingarkerfi og er í gildi á Íslandi, eigi ekki við þegar um kerfishrun er að ræða. Þessi skýrsla birtist árið 2000 og það voru Frakkar sjálfir sem bentu Íslendingum á tilvist skýrslunnar og þetta mat þegar óvissan öll hófst um Icesave-reikningana. En hjálp Frakka hefur ekki verið þegin í þessu máli sem skyldi, enda stjórnvöldum verið mjög í mun að raska ekki ró Breta og Hollendinga og fátt hefði líklega raskað ró þeirra eins mikið og ef Frakkar hefðu farið að beita sér fyrir okkar hönd. En þessi skýrsla sem birtist árið 2000 var skrifuð af hópi valinkunnra manna sem höfðu það hlutverk að fara yfir og meta innstæðutryggingarkerfið. Formaður þessarar nefndar, sá sem ber ábyrgð á skýrslunni, er Jean-Claude Trichet sem þá var bankastjóri franska seðlabankans en er nú seðlabankastjóri Evrópu svo það ætti nú að muna um það að fá staðfestingu á því hjá seðlabankastjóra Evrópu að evrópska innstæðutryggingarkerfið ætti ekki við þegar um kerfishrun væri að ræða. Aðrir skýrsluhöfundar eru Jean-Pierre Jouyet, sem á sínum tíma fór fyrir franska fjármálaráðuneytinu en er núna forstjóri franska fjármálaeftirlitsins. Og sá þriðji af helstu höfundum skýrslunnar er Xavier Musca, núverandi forseti Parísarklúbbsins, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur oft nefnt til sögunnar. Þessa skýrslu hefur ríkisstjórn Íslands að því er virðist ekki einu sinni reynt að nýta sér til að tala máli þjóðar sinnar. Þvert á móti lögðu menn sig í líma við að gera lítið úr skýrslunni og gildi hennar á Íslandi sérstaklega, vildu ekki fá nein vopn til að berjast fyrir málstað landsins í þessu stóra máli.

Þá er komið að atriði númer 30, sem er það sem kannski veldur mestum vonbrigðum af þessu öllu og það er það að íslensk stjórnvöld hafa ekki í þessu máli reynt að halda á lofti málstað Íslendinga. Nú sárnar ríkisstjórninni þegar slíku er haldið fram og ráðherrar hafa ýjað að því að þeir hafi verið sakaðir um landráð. Ég held að menn hafi ekki mikið notað það orð en hins vegar er alveg ljóst að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki uppfyllt þá frumskyldu ríkisstjórna að verja hagsmuni ríkisins umfram allt. Þetta er ekki eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur með því að geta okkur til hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar eða ráðherrar sjálfir hafi staðið sig á fundum í útlöndum. Það nægir að hlusta á ræður ráðherranna í þinginu alveg frá því í júní. Hver einasta ræða sem hæstv. forsætisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra, hæstv. félagsmálaráðherra og fleiri hafa haldið hér ganga út á það að gera lítið úr málstað Íslendinga. Ræðurnar gera gegnumgangandi lítið úr málstað Íslendinga, draga úr öllum þeim sterku rökum sem við höfum, íslenska þjóðin, í þessu máli en lyfta upp hverju því sem samninganefndir Breta og Hollendinga hafa haldið fram í málinu. Þar nægir bara að lesa yfir ræðurnar, það þarf ekki meira. Það er nóg að lesa yfir ræður þessara ráðherra frá því í júní til að sjá hreint ótrúlegan málflutning af hálfu ráðherra sem ættu að gæta hagsmuna Íslands en hafa kerfisbundið reynt að gera lítið úr öllum þeim ábendingum og öllu því sem mátti verða okkur að vopni í þessari baráttu.

Númer 31 varðar bréfaskriftir hæstv. forsætisráðherra til kollega sinna í Bretlandi og Hollandi. Forsætisráðherrar Bretlands og Hollands höfðu ekki fyrir því að svara bréfi hæstv. forsætisráðherra Íslands með beiðni um fundi fyrr en farið var að fjalla um það á Íslandi að engin svör hefðu borist. Þá bárust frá forsætisráðherrunum erlendu svör sem voru heldur snubbótt og í engu var svarað til að mynda þeirri beiðni að haldnir yrðu fundir. Maður skyldi ætla að þegar þessir erlendu forsætisráðherrar sýndu þessi viðbrögð kallaði það á einhver viðbrögð af hálfu ríkisstjórnar Íslands. Nei, það var eitthvað lítið. Það var ekki beðið með afgreiðslu málsins þangað til slíkir fundir hefðu farið fram eða þangað til þessir forsætisráðherrar hefðu yfir höfuð tekið nokkurt mark á íslensku ríkisstjórninni, virt hana viðlits. Nei, það var bara bætt í fyrir hönd Breta og Hollendinga við að reyna að koma þessu máli í gegnum þingið og við erum að verða vitni að því nú, framhaldi þess, að þó að íslensk stjórnvöld séu ekki virt viðlits af forsætisráðherrum Bretlands og Hollands gera þau skyldu sína að því er þau telja gagnvart þessum ríkjum með því að halda þinginu fram á nætur þar sem stjórnarliðar hafa ekki einu sinni fyrir því nema örfáir að hlýða á ræður um málið.

Reyndar er rétt að geta þess að í bréfunum frá forsætisráðherra Bretlands og forsætisráðherra Hollands kemur augljóslega fram það sem ég gat um áðan, það viðhorf að íslensk stjórnvöld séu fyrst og fremst með það hlutverk að gæta hagsmuna Bretlands og Hollands, enda var bréfið frá Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þess efnis að það hefði allt eins getað verið sent til undirmanns hans á Íslandi. Forsætisráðherrann breski er þar að gefa dálítið klapp á kollinn og segja að þetta sé að hafast, það þurfi bara aðeins meira af því sama og klára málið. Þetta hefði allt eins getað verið bréf til sendiherra Bretlands á Íslandi nema það hefði líklega ekki verið jafnsnubbótt og hann hefði varla þurft að bíða í hátt í þrjá mánuði eftir svari.

Atriði númer 32 eru yfirlýsingar fjármálaráðherra þessara ríkja, Bretlands og Hollands, sem staðið hafa í þessu stríði við Íslendinga. Hvað sagði Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, um innstæðutryggingarkerfið? Hann sagði nákvæmlega það sama og getið var um í frönsku skýrslunni, að því væri ekki ætlað að takast á við kerfishrun. Skýrslunni sem íslensk stjórnvöld höfðu reynt að gera lítið úr en hollenski fjármálaráðherrann tók undir það sem þar kom fram og staðfesti það. Var þessu snúið upp á hann? Voru hollensk stjórnvöld látin standa fyrir máli sínu í því hvernig þau hefðu komið fram gagnvart Íslendingum og hvernig það samræmdist ekki þessum yfirlýsingum og því sem augljóslega á að vera tilgangur innstæðutryggingarkerfisins? Nei, auðvitað var það ekki gert. Það var einhver sem sópaði þessu undir teppið því að þetta var óþægilega sterkt vopn fyrir Íslendinga til að beita.

Sama var með fjármálaráðherra Bretlands sem hefur lýst því yfir að Bretar muni ekki ábyrgjast innstæður á reikningum utan við það svæði sem breska fjármálaeftirlitið hefur yfirsýn yfir og eftirlit með, og bætti við til að útskýra enn frekar að reikningar á eyjunni Mön næðu ekki þar til, þ.e. bresk stjórnvöld mundu ekki ábyrgjast þá reikninga vegna þess að það hefði ekki verið greiddur fjármagnstekjuskattur af þeim reikningum til Bretlands vegna þeirra skattasamninga sem eyjan Mön hefur. Var greiddur fjármagnstekjuskattur af Icesave-reikningunum til Íslands? Nei, það var ekki. Það var nákvæmlega það sama og með reikningana á Mön. Þeir voru greiddir í því ríki og þar af leiðandi hefði það sama átt að eiga við um Icesave-reikninga eins og reikninga Kaupþings eða Landsbankans á eyjunni Mön. Þetta var að sjálfsögðu ekki notað eða beitt að neinu ráði í þessum samningaviðræðum.

Númer 33, ESB-reglurnar eða reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Það er býsna stórt atriði að það sem hér gerðist, þ.e. stofnun þessara reikninga, var gert í krafti reglna frá Evrópusambandinu. Það var í rauninni svo að íslensk stjórnvöld hefðu ekki getað stoppað stofnun þessara reikninga vegna þess að þeir voru í samræmi við þær reglur sem hér höfðu verið innleiddar frá ESB. Að sjálfsögðu vill Evrópusambandið verja reglur sem það sjálft hefur samið, það er gefinn hlutur. Þess vegna þurfa íslensk stjórnvöld ekki að koma hér og segja voðalega undrandi að þau hafi reynt að ræða þetta mál í Brussel en það hafi bara enginn viljað taka undir túlkun okkar á þessum evrópsku reglum. Að sjálfsögðu vildu þeir ekki taka undir túlkun okkar á þessum evrópsku reglum vegna þess að það var óþægilegt fyrir þá. Það var að sjálfsögðu óþægilegt fyrir Evrópusambandið að horfast í augu við að þessi stóri galli væri á þeirra eigin regluverki. Að sjálfsögðu kostaði einhvern slag að benda á slíkt. Menn gátu ekki vænst þess að fara til Brussel og segja Evrópusambandinu að það væri stórkostlegur galli á regluverki þess, galli sem gæti haft áhrif um alla álfuna, og búist við því að fulltrúar ríkjanna mundu einfaldlega samþykkja það í fyrstu tilraun og segja: Hvað getum við gert? Reyndar var Evrópusambandið til í viðræður en það tækifæri var, eins og fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur bent á, ekki nýtt. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég á fjölmörg atriði eftir af þessum stærstu atriðum og verð þess vegna að biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.