138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Já, frú forseti. Þetta er mjög eðlileg spurning frá hv. þingmanni. Ég hefði í raun mátt útskýra nánar þetta samspil milli lánshæfismats og skuldastöðu ríkja. En það liggur fyrir hvernig hin margumtöluðu lánshæfismatsfyrirtæki meta ríkið hverju sinni og langstærsti þátturinn þar er skuldastaðan, samspil skulda og svo tekjuöflunin, þ.e. þeir peningar sem ríkið fær inn til að borga út. Og þá er sérstaklega hugað að erlendum skuldum.

Því hefur verið haldið fram hér að þetta ætti ekki að hafa svo mikil áhrif, að taka á sig þessa gríðarlegu erlendu skuldbindingar, vegna þess að það sé þegar búið að gera ráð fyrir því að þetta lendi á okkur. Og ágætur vinur minn einn, sem er mikill reykingamaður, útskýrði þetta þannig fyrir mér, að þetta væri eins og þegar hann fer til læknis, að læknirinn sem iðulega skammar hann nú fyrir reykingarnar, tæki allt í einu upp á því að fullyrða við hann að reykingar hefðu engin áhrif á heilsu (Forseti hringir.) eða líf viðkomandi, því hann væri þegar búinn að gera ráð fyrir því að hann reykti.