138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Já, ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta var (Forseti hringir.) svar við minni …

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmann á að ávarpa forseta í upphafi ræðu.)

Frú forseti, ég biðst afsökunar, þetta er svona þegar manni hleypur kapp í kinn og mikið liggur við að koma málefnum sínum á framfæri, þá gerist þetta. En ég sé að hv. þingmaður hefur aðeins eina mínútu til þess að svara mér, þannig að hann á svarið við seinni spurningunni eftir og ég bíð spennt eftir að fá að heyra hvað hann hefur til málanna að leggja, vegna þess að mér þykir afskaplega áhugavert að hafa staðið hér í dag og hlustað á hv. þingmenn svara spurningum mínum varðandi það hvaða leiðir þeir sjá út úr þessum vanda, vegna þess að við stöndum hér á Alþingi Íslendinga og erum að reyna að greiða úr þessum flækjum.

Það er ekkert launungarmál að það er ekki auðvelt að stjórna á Íslandi í dag. Við í stjórnarandstöðunni erum hér til þess að vekja athygli á ákveðnum sjónarmiðum og þess vegna er brýnt að við komum með málefnalegar ræður, eins og hv. þingmaður hefur gert, og leitum lausna (Forseti hringir.) líkt og ég veit að hv. þingmaður mun nú leggja fram.