138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir þessa efnisríku og málefnalegu ræðu. Ein rökvilla var þó á henni. Hv. þingmaður útskýrði hér hlutföll á millum skuldar ríkis og lánshæfismats og að auknar skuldir rýri lánshæfismatið. Þá er ekki hægt að segja, a.m.k. ekki frá sjónarhóli þeirra sem samþykktu lögin hér í sumar, að Icesave og samþykkt þessa frumvarps rýri lánshæfismatið, vegna þess að í sumar voru menn að taka á sig þessar skuldir. Efnahagslegu fyrirvararnir sem voru lagðir fram af stjórnarandstöðunni og nokkrum stjórnarliðum voru reiknaðir út samkvæmt ósk frá þeim sem bjuggu þá til með það fyrir augum að fyrir árið 2024 yrði þessi skuld greidd. Ergo: Skuldin öll hvíldi á Íslendingum.

Í öðru lagi. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um að líklegt sé að samþykkt þessa frumvarps leiði til þess að við tökum á okkur einhverja óbærilega skuldaklafa og að þetta hefti þróun okkar. Af hverju? Vegna þess að efnahagslegu fyrirvararnir eru enn þá fyrir hendi. Og ef (Forseti hringir.) það verður forsendubrestur er bæði endurskoðun og síðan enn sterkara ákvæði í yfirlýsingu ráðherranna þriggja.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir málefnalega (Forseti hringir.) þátttöku í þessum umræðum, en það er nokkurt rof á hefð stjórnarandstöðunnar að öðru leyti í þessari umræðu.