138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að reyna að tala hratt, fyrst að fyrra atriðinu. Endurskoðunarákvæði samninganna er þess eðlis að fari skuldahlutfall þjóðarinnar yfir 240%, minnir mig, þá sé tilefni til þess að endurskoða þá. Nú er skuldahlutfallið komið vel yfir 300%, samt hefur það ekki verið virkt, samt hefur endurskoðunarákvæðið ekki verið virkjað.

Hvað hitt varðar, í hvaða flokki ráðherrann var sem var hér við völd þegar þessir reikningar voru stofnaðir hefur ekkert með málið að gera, vegna þess einfaldlega að um var að ræða evrópska reglugerð, (Gripið fram í.) reglugerð sem var hér innleidd af Alþýðuflokknum á sínum tíma með Evrópska efnahagssvæðinu og er afleiðing af henni, enda þurftu bankarnir ekki að gera annað en að fylgja þeim reglum sem þá höfðu verið settar með tilkomu EES-samningsins. Einfaldasta svarið er líklega Alþýðuflokkurinn.