138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur þakkað hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilið svar. Hann tekur að sér að gæta hagsmuna þeirra framsóknarmanna sem áttu sparifé inni í þessu ímyndaða útibúi breska bankans sem fór á hausinn og gerir þá kröfu til þess banka og þess ríkis að innstæðutryggingin sé í gildi. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta hreinskilna svar og fyrir þessa málafylgju að halda svo utan um hag sparifjáreigenda.

Virðulegi forseti. Í helgri bók stendur: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Gripið fram í.) Ég held að formaður Framsóknarflokksins hafi stigið hér gott skref sem sýnir þá og sannar að hann telur að okkur, Íslendingum, illu heilli út af þessu útibúi Landsbankans í Bretlandi, beri skylda til að standa við innstæðurnar.