138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna liggur líklega hundurinn grafinn. Hæstv. samgönguráðherra er á máli Breta og Hollendinga. Hann telur að skyldan sé raunverulega til staðar af hálfu Íslendinga til að borga. Og þess vegna er ráðherrann ekki að reyna að verja málstað Íslands. Þess vegna er hann ekki að reyna að verja okkur í þeim árásum sem við höfum orðið fyrir af hálfu þessara ríkja.

En það er mjög mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi að það er búið að bæta bresku og hollensku innstæðueigendum inneign sína að því marki sem innstæðutryggingartilskipunin segir til um og töluvert mikið meira. Það gerði breska ríkið og það hollenska, þau tóku upp á því sjálf og notuðu reyndar ólíkar reglur í hvoru landinu fyrir sig. Þetta snýst því um kröfu breska ríkisins. Og breska ríkið olli Íslandi alveg gífurlegu tjóni síðastliðið haust þegar það lagði Kaupþings-bankann í rúst og beitti okkur hryðjuverkalögum (Forseti hringir.) sem kostuðu okkur ómældar upphæðir.