138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sat í salnum og heyrði skýr svör virðulegs forseta að mælendaskrá yrði tæmd og virðulegur forseti benti á að 13 væru á mælendaskrá núna. Nú er það svo að maður setur sig á mælendaskrá eftir að hafa lokið ræðu, þannig að það er ómögulegt að segja hversu oft fólk ætlar að tala í kvöld. Það er ekki nokkur leið að sjá út frá mælendaskránni hversu lengi þingfundur mun standa.

Vegna þess að nefndafundir eru í fyrramálið og maður þarf að búa sig undir morgundaginn væri þá hægt að fá virðulegan forseta til þess að segja okkur frá því hvort einhver önnur takmörk séu en mælendaskráin, eða munu dagarnir kannski falla saman hjá okkur núna? (Forseti hringir.)