138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil einmitt blanda mér aðeins í þessa umræðu til að vekja athygli á því að varhugavert er fyrir hæstv. forseta að áætla tíma þessarar umræðu eingöngu út frá þeim sem nú eru á mælendaskrá. Ég hef haldið þrjár ræður í þessu máli og mína þriðju núna áðan en þá hafði ég ekki komist í umræðuna síðan á fimmtudag og ég á enn talsvert eftir ósagt, þannig að hæstv. forseti getur gert ráð fyrir að ég óski eftir því að komast aftur á mælendaskrá eftir að ég er búin að tala í það skiptið eins og mælendaskráin liggur nú fyrir. Miðað við það er því hægt að gera ráð að það verði, eins og ég skil hæstv. forseta, ekki nefndafundir í fyrramálið heldur fundi væntanlega fram haldið til klukkan 10.30 eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vakti athygli á áðan.