138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra er mjög spenntur fyrir því að halda hér fundi fram eftir morgni og ég hlakka því til að eyða nóttinni með hæstv. utanríkisráðherra í nótt og við þingmenn væntanlega öll.

En varðandi ummæli hæstv. utanríkisráðherra þar sem hann mæltist til þess að menn hættu við að setja sig inn á mælendaskrána þá er það einfaldlega þannig, frú forseti, að þegar manni liggur mikið á hjarta og maður hefur margt að segja og þarf jafnvel að setja ræður sínar upp í excel þá setur maður sig að sjálfsögðu á mælendaskrá þangað til maður hefur úttalað sig um það mál. Það er einfaldlega þannig, frú forseti. Ég tel því varhugavert að hæstv. forseti geri ráð fyrir að ummæli hæstv. utanríkisráðherra leiði til þess að menn hætti að setja sig á mælendaskrá þar sem ég tel rétt að menn fái að segja það sem segja þarf í þessu máli, af nógu er að taka. Ég veit að hv. þingmaður, sem allir eru farnir að kalla hæstv. ráðherra, ég veit ekki af hverju sá orðrómur hefur farið af stað hér í húsinu, (Forseti hringir.) á nóg eftir, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.