138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Nú hefur verið birt orðrétt svar framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við bréfi Gunnars Sigurðssonar og fleiri þar sem er alveg skýrt að framkvæmdastjórn sjóðsins segir að þetta Icesave-mál hafi ekki verið neitt að þvælast fyrir honum og bendir svo á Norðurlöndin, að það hafi verið eitthvert vandamál þar. Síðan hafa Norðmenn staðfest það og nú er í þingskjölum í norska þinginu að þetta hafi heldur ekkert með Icesave að gera, lánin standi nú Íslandi til boða o.s.frv.

Í Ríkisútvarpinu er vitnað í orð hæstv. fjármálaráðherra og eftirfarandi haft eftir honum, með leyfi frú forseta:

„En með hliðsjón af reynslunni gætu menn hugleitt hve líklegt er að hún verði að veruleika“ — þ.e. endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í febrúar — „ef Icesave verður enn óleyst.“

Telur þingmaðurinn eðlilegt að fjármálaráðherra velti því upp og segi að líklega muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tefja endurskoðun, væntanlega þriðju endurskoðun á málefnum Íslands, ég man ekki alveg fjöldann á þeim, á nýju ári ef þetta Icesave-mál verður ekki leyst? Telur þingmaðurinn eðlilegt að hæstv. ráðherra komi því á framfæri að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni hugsanlega tefja þessa endurskoðun út af Icesave í ljósi þess að framkvæmdastjórinn er búinn að segja að þetta komi málinu ekkert við? Mér finnst þetta rekast hvort á annars horn, hv. þingmaður. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við veltum þessu hér upp og áttum okkur á því hver staðan (Forseti hringir.) raunverulega er.